Þjóðræknisfélag Íslendinga

eflir tengsl Íslendinga við afkomendur Íslendinga sem flust hafa til Kanada og Bandaríkjanna með því að:
■ gefa ungu fólki af íslenskum ættum í Norður-Ameríku tækifæri til að kynnast rótum sínum á Íslandi í 6 vikna sumarverkefni.
■ gefa ungum Íslendingum tækifæri til að kynnast bandarískum og kanadískum fjölskyldum af íslenskum ættum í 4 vikna sumarverkefni.
■ auðvelda listafólki og fræðimönnum til að kynna list sína og hugðarefni í Íslendingabyggðum vestan hafs eða á Íslandi.
■ aðstoða fólk á Íslandi og Norður-Ameríku við að komast í kynni við ættmenni sín í Norður-Ameríku eða á Íslandi.
■ stuðla að skipulögðum kynnisferðum á slóðir Vestur-Íslendinga í Norður-Ameríku.

 


Velkomin á heimasíðu
Þjóðræknisfélags Íslendinga

Heimasíða Þjóðræknisfélagsins er ætlað að auðvelda og auka samskipti félagsins við félagsmenn. Það verður keppikefli stjórnar ÞFÍ að félagsmenn geti á síðunni aflað sér upplýsinga um starfsemi félagsins og það sem er framundan hjá félaginu. Þá verður leitast við að segja fréttir af atburðum í Noður–Ameríku þar sem fólk af íslenskum ættum koma við sögu.

Markmið félagsins er að efla samhygð og samstarf milli Íslendinga heima og erlendis, og tengsl við fólk af íslenskum ættum í Norður-Ameríku. Félagið beitir sér fyrir eflingu samskipta við Þjóðræknisfélag Íslendinga í Vesturheimi samkvæmt sérstökum samstarfssamningi.
 


 

02.11.2017
Fræðslufundur Þjóðræknisfélags Íslendinga 14. nóvember nk.
The Johnsons Twins

Áhugavert erindi og skemmtileg 20 mínútna heimildamynd verða á fræðslufundi Þjóðræknisfélags Íslendinga (ÞFÍ) þriðjudaginn 14. nóvember nk. kl. 16:30 í aðalbyggingu utanríkisráðuneytisins, Rauðarárstíg 25.

Gísli Sigurðsson flytur erindið - Mál og menning í frásögnum Vesturíslendinga.  

Jón E. Gústafsson sýnir myndina - Olivia & Fjola - The Johnson Twins from Lonely Lake.

Þið eruð hvött til að taka frá 14. nóvember kl. 16:30 og taka með ykkur gesti.

 

Lesa meira...
11.08.2016
Áhugaverð og fjölbreytt dagskrá á Þjóðræknisþingi 2016
Mynd 1 gudnithjoh
Þjóðræknisþing 2016 verður haldið sunnudaginn 28. ágúst nk. að Hótel Natura í Reykjavík og hefst kl. 14.00. Heiðursgestur þingsins verður nýkjörinn forseti Íslands Hr. Guðni Th. Jóhannesson sem mun ávarpa þingið. Einnig ávarpar þingið Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, en hann var heiðursgestur á Íslendingahátíðunum í Mountain og Gimli í byrjun þessa mánaðar. Að vanda er dagskráin fjölbreytt. Lesa meira...
11.08.2016
Bræðurnir Kristjan og Eric Stefanson
DSC_0731

Í byrjun júlí sl. bauð Vestur-Íslendingurinn Eric Stefanson til samveru til að minnast og gleðjast yfir lífsstarfi bróður síns Kristjan Stefanson hæstaréttardómara í Winnipeg sem lést 2. mars sl. á 72. aldursári.

Við sama tækifæri var Eric afhent skjal sem staðfesti nafnbót hans sem heiðursfélagi Þjóðræknisfélags Íslendinga. Eric er heiðraður fyrir áratuga óeigingert starf, m.a. í stjórn Þjóðræknisfélagsins, fyrir hans frumkvæði að stofnun Snorra verkefnanna og ómetanlegan stuðning við verkefnin alla tíð, við að koma á auknum tengslum milli Vestur-Íslendinga og Íslendinga á sviði menningar og viðskipta. 

Á meðfylgjandi mynd er Eric ásamt Myrnu konu sinni, Kirsten dóttur sinni og Signýju dótturdóttur sinni.

Lesa meira...
04.03.2016
Íslandsvinurinn Kritjan Stefanson látinn
Kristjan Stefanson

Vestur-Íslendingurinn og Íslandsvinurinn Kristjan Stefanson ler látinn í Winnipeg tæplega 72 ára að aldri. Kris, eins og hann var gjarnan nefndur, var einstakur heiðursmaður og öðlingur. Örlátur var hann svo af bar og nutu þess fjölmargir sem urðu á vegi hans. Hann var „andlit“ Íslendingadagsins í Gimli í áratugi, annaðist boðsgesti og var tengiliður við fjölmiðla svo fátt eitt sé nefnt. Hann ræktaði íslensku arfleifð sína af einskærri ást og virðingu. Ísland var honum ætíð ofarlega í huga eins og fjölmargar heimsóknir hans hingað til lands bera vitni um. Góðs drengs er sárt saknað.

Þjóðræknisfélag Íslendinga þakkar Kris vináttu og mikils metna samfylgd og sendir bræðrum hans og ættingjum innilegar samúðarkveðjur.

Lesa meira...
29.02.2016
Afmælishátíð Vesturfarasetursins í Hörpu 13. mars nk.
Vesturfarasetrið

Í tilefni af 20 ára afmælis Vesturfarasetursins á Hofsósi efnir Þjóðræknisfélagið í samstarfi við Vesturfarasetrið og Hörpuna  til fagnaðar í Silfurbergi í Hörpunni sunnudaginn 13. mars nk. kl. 13.00. Samkoman hefst með söng Karlakórsins Heimis úr Skagafirði. Því næst verður undirritaður samstarfssamningur á milli Vesturfarasetursins og Hörpunnar um sýninguna „Þögul leiftur“ sem hefur að geyma 400 ljósmyndir af fólki af íslenskum ættum í Ameríku. Í framhaldinu mun Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra opna sýninguna.

Að þessu loknu verður áfram haldið í Silfurbergi. Þar mun Vigdís Finnbogadóttir fv. forseti Íslands og heiðursfélagi Þjóðræknisfélagsins ávarpa samkomuna. Farið verður yfir sögu Vesturfarasetursins í máli og myndum með skemmtilegu ívafi. Fagnaðinum lýkur um kl. 15  með hvatningarorðum Valgeirs Þorvaldssonar forstöðumanns Vesturfarasetursins.

Lesa meira...