ÞJÓÐRÆKNISFÉLAG ÍSLENDINGA

eflir tengsl Íslendinga og Vestur-Íslendinga
SKRÁÐU ÞIGUM FÉLAGIÐ

“Þjóðrækni snýst um umburðarlyndi, víðsýni og náungakærleik”

“Nafn Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi er hljómfagurt á ensku og þjóðrækni er fallegt orð íslensku. Það er vel sett saman, vísar til þjóðar, hóps fólks sem á sitthvað en ekki allt sameiginlegt úr fortíð, kýs að teljast að mestu ein heild í samtímanum og vill bæta saman eigið líf og næstu kynslóða.
Seinni hluti orðsins þjóðrækni er dreginn af sögninni að rækja, leggja rækt við, hirða um eitthvað. Skylt orð er frændrækni, að vilja vita um hagi ættfólks síns, sinnar eigin fjölskyldu. Frændrækni er lofsverð en öllu verri er frændhygli, að ívilna skyldfólki sínu á kostnað annarra. Að sama skapi er þjóðrækni til fyrirmyndar en þjóðremba alls ekki. Hún felur í sér gorgeir og þótta í garð annarra, dramb og yfirlæti. Þjóðremba elur á óvild, þjóðrækni snýst um umburðarlyndi, víðsýni og náungakærleik.”
– Guðni Jóhannesson, Forseti Íslands

Velkomin á vef Þjóðræknisfélags Íslendinga. Markmið félagsins er að efla samhygð og samstarf milli Íslendinga heima og erlendis, og tengsl við fólk af íslenskum ættum í Norður-Ameríku. Félagið beitir sér fyrir eflingu samskipta við Þjóðræknisfélög Íslendinga í Vesturheimi samkvæmt sérstökum samstarfssamningum.

ÞJÓÐRÆKNISFÉLAG ÍSLENDINGA

eflir tengsl Íslendinga við afkomendur Íslendinga sem flust hafa til Kanada og Bandaríkjanna með því að:
– gefa ungu fólki af íslenskum ættum í Norður-Ameríku tækifæri til að kynnast rótum sínum á Íslandi í 6 vikna sumarverkefni.
– gefa ungum Íslendingum tækifæri til að kynnast bandarískum og kanadískum fjölskyldum af íslenskum ættum í 4 vikna sumarverkefni.
– auðvelda listafólki og fræðimönnum til að kynna list sína og hugðarefni í Íslendingabyggðum vestan hafs eða á Íslandi.
– aðstoða fólk á Íslandi og Norður-Ameríku við að komast í kynni við ættmenni sín í Norður-Ameríku eða á Íslandi.
– stuðla að skipulögðum kynnisferðum á slóðir Vestur-Íslendinga í Norður-Ameríku.

NÝJUSTU FRÉTTIR

SKRÁÐU ÞIG Í FÉLAGIÐ

Þjóðræknisfélag Íslendinga er ætlað að viðhalda og efla tengsl Íslendinga við afkomendur Íslendinga sem flust hafa til Ameríku, einkum Kanada og Bandaríkjanna. Arfleifð Íslendinga sem fluttust vestur um haf er hluti af sögu okkar og menningu sem okkur ber skylda til að varðveita. Það gerum við best með því að tengjast afkomendum þeirra með gagnkvæmum samskiptum á sem flestum sviðum.

Þjóðræknisfélagið hefur í samvinnu við Norræna félagið á Íslandi staðið fyrir Snorraverkefninu sem veitir ungu fólki af íslenskum ættum í Norður-Ameríku tækifæri til að kynnast rótum sínum á Íslandi í 6 vikna sumarverkefni. Þegar heim er komið hafa mörg þessara ungmenna gerst virk í starfi Íslendingafélag¬anna í Kanada og Bandaríkjunum. Þá hafa nokkur þeirra lagt stund á íslenskunám hér á landi. Þessi ungmenni og fjölskyldur þeirra hafa tengst vináttuböndum við íslensk skyldmenni sem þau dvöldu hjá á Íslandi. Þannig hefur verkefnið flutt íslensku arfðleifðina í Vesturheimi frá eldri kynslóð til þeirrar yngri.

Með því að gerast félagi í Þjóðræknisfélaginu og taka virkan þátt í starfsemi þess eða leggja því lið með árgjaldi sínu stuðlar þú að því að þessi mikilvægi menningararfur okkar glatist ekki, heldur verði ljóslifandi hjá fólki beggja vegna Atlantsála. Árgjald 3.500 kr.