SAGA FÉLAGSINS

Þjóðræknisfélag Íslendinga var stofnað þann 1. desember árið 1939 þegar nokkrir hugsjónamenn komu saman til fundar í kaupþingssal húss Eimskipafélags Íslands en óformlegt félag hafði þá verið starfandi um nokkurt skeið.

Markmið með stofnun félagsins var að auka samskipti og samvinnu milli austur-og vesturíslendinga eins og það var orðað. Þá voru liðin 20 ár frá því að Þjóðræknisfélag Íslendinga í Vesturheimi var stofnað sem nú gengur undir nafninu The Icelandic National League of North America, systurfélag Þjóðræknisfélags Íslendinga.

Tímasetning stofnunar Þjóðræknisfélags Íslendinga er athyglisverð. Síðari heimstyrjöldin var nýhafin og samgöngur og öll samskipti voru mjög erfið. Eftir stríðslok urðu hins vegar alger straumhvörf. Reglubundnar flugsamgöngur hófust og í kjölfarið voru skipulagðar fjölmargar hópferðir vestur á slóðir íslenskra landnema og einnig að vestan til gamla landsins eins og Ísland var gjarnan nefnt af íslenskættuðu fólki í Kanada og Bandaríkjunum. Þjóðræknisfélag Íslendinga átti sitt blómaskeið á þeim áratugum sem fóru í hönd. Starfsemi félagsins lá niðri síðar um nokkurn tíma.

Þann 9.október árið 1997 var Þjóðræknisfélag  Íslendinga  endurreist formlega á degi Leifs Eiríkssonar í Bandaríkjunum með stuðningi þáverandi  ríkisstjórnar Íslands. Þar með hófst nýtt blómaskeið í starfsemi Þjóðræknisfélagsins. Í samræmi við upphafleg markmið við stofnun þess hefur verið lögð áhersla á að tengja nýja kynslóð afkomenda landnema við Ísland. Hefur Þjóðræknisfélagið haft forystu um slík tengsl með dyggum stuðningi stjórnvalda og annarra stuðningsaðila.  Þjóðræknisfélagið hefur þannig í samvinnu við Norræna félagið á Íslandi staðið fyrir svokölluðu Snorraverkefni sem nú hefur starfað í 13 ár. Snorraverkefnið veitir ungu fólki af íslenskum ættum í Norður-Ameríku tækifæri til að kynnast rótum sínum á Íslandi í 6 vikna sumarverkefnum. Á undanförnum 12 árum hefur einnig verið lögð mikil áhersla á skipulagðar hópferðir frá Íslandi á hin ýmsu landnámssvæði í Norður Ameríku. Á síðustu árum hafa heimsóknir fólks frá Bandaríkjunum og Kanada til Íslands einnig stóraukist. Náin samskipti eru við ýmis samtök Íslendinga vestanhafs og stuðlað er að gagnkvæmum menningarviðburðum.

Forseti Þjóðræknisfélags Íslendinga er nú Hulda Karen Daníelsdóttir. Þar áður gegndi því embætti Hjálmar W. Hannesson sem tók við af Halldóri Árnasyni.