Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2023-2024

Aðalfundur Þjóðræknisfélags Íslendinga var haldinn í húsnæði utanríkisráðuneytisins að Rauðarárstíg 25, þriðjudaginn 23. maí 2023, kl. 16.00. Hulda Karen Daníelsdóttir, formaður félagsins, setti fundinn og bauð fundargesti í sal velkomna og einnig þá sem tóku þátt í fundinum á netinu. Hulda Karen kynnti dagskrá fundarins sem hafði verið send ásamt skýrslu stjórnar til félagsmanna með tölvupósti nokkru fyrir fundinn. Engar athugasemdir voru gerðar við dagskrána. Hulda Karen tilnefndi Sigurð R. Jónmundsson sem fundarstjóra og Gísla Sigurðsson sem fundarritara. Þar næst tóku við venjuleg aðalfundarstörf. Formaðurinn fór yfir það helsta í skýrslu stjórnar um starfsemina á árunum 2022-2023, endurskoðaðir reikningar voru lagðir fram til samþykktar og ný stjórn kjörin.

Tillaga um aðalmenn í stjórn til tveggja ára voru eftirfarandi: Gísli Sigurðsson formaður ÞFÍ. Aðrir aðalmenn í stjórn: Bjarni Þór Þórólfsson, Jón E. Gústafsson og Soffía Óskarsdóttir. Aðalmenn í stjórn til eins árs: Pála Hallgrímsdóttir (tekur sæti Ásdísar Höllu Bragadóttur sem sagði sig úr stjórn). Varamenn í stjórn til eins árs: Þórður Bjarni Guðjónsson, Guðrún Guðsteinsdóttir og Helga Hilmisdóttir. Aðalmenn sem sitja áfram í stjórn: Sigurbjörg A. Guttormsdóttir og Sigurður Rúnar Jónmundsson. Fulltrúar afkomenda íslenskra landnema tilnefndir af INLNA og INLUS: Bev Arason-Gaudet tilnefnd af INLNA og Dianne O‘Konski tilnefnd af INLUS. Í byrjun árs tók Ashley Thorvaldson sæti Bev Arason-Gaudet fyrir INLNA og Douglas Hanson fyrir INLUS. Fráfarandi formaður ÞFÍ í stjórn til eins árs: Hulda Karen Daníelsdóttir. Tillaga kjörnefndar var samþykkt óbreytt með öllum greiddum atkvæðum. Guðrún Ágústsdóttir var kosin formaður kjörnefndar. Með henni í nefndinni eru Hjálmar W. Hannesson og Steinn Logi Björnsson.

Starfsemi félagsins á starfsárinu var umfangsmikil og fjölbreytt eins og nánar verður greint frá hér á eftir. Frá því á aðalfundinum þann 23. maí hafa verið haldnir sjö stjórnarfundir, einn af þeim á Zoom, en sex í húsnæði Búseta, Síðumúla 10. Fjöldi félagsmanna er nú 419. Félagið hefur aðgang að skrifstofuaðstöðu sem Snorrasjóður leigir í húsnæði Norræna félagsins, Óðinsgötu 7, sem er jafnframt heimilisfang ÞFÍ.  Á síðasta aðalfundi var Gísli Sigurðsson kjörinn formaður Þjóðræknisfélagsins en hann sagði sig frá þeim störfum í byrjun september. Stjórn ÞFÍ hélt fund 20. september þar sem stjórn hvatti Pálu Hallgrímsdóttur að taka að sér formennsku. Pála tók við sem formaður í lok september og gegnir því enn í dag.

Fræðslufundir

Á fræðslufundi félagsins sem haldinn var þriðjudaginn 20. febrúar í húsnæði utanríkisráðuneytisins flutti Guðrún Brjánsdóttir erindið Heimþrá í handritum: Handrit Vestur-Íslendinga í Ballard, Seattle, Bandaríkjunum. Erindið fjallaði um tímaritið Geysi sem hóf göngu sína í byrjun 20. aldar og var málgagn Íslendinga í Ballard í um hálfa öld. Ýmsir textar sem birtust í tímaritinu voru teknir fyrir, svo sem frumsamin ljóð og kvæði, og upplifun og viðhorf skáldanna könnuð og greind. Hvernig birtist reynsluheimur Íslendinganna í Ballard í gegnum kveðskap þeirra?

Guðrún Brjánsdóttir (f. 1995) er rithöfundur og íslenskufræðingur. Hún er með MA-próf í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands og hefur kennt íslensku sem annað mál við skólann, sem og forníslensku við Cornell University í Bandaríkjunum. Guðrún hefur gefið út ljóð, ljóðaþýðingar og skáldsögur, nú síðast skáldsöguna Óbragð hjá Forlaginu. Hún stundar nú doktorsnám í íslenskum bókmenntum við Árnastofnun þar sem viðfangsefni hennar er dróttkvæði í íslenskum handritum.

Guðrún var starfsmaður í verkefninu Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi (verkefnisstjóri: Katelin Parsons) og skráði þar ýmis handrit Vestur-Íslendinga.

Vefsíða verkefnisins, vesturheimur.arnastofnun.is, hefur nú verið opnuð og eru handritin öllum aðgengileg.

Fréttabréf

Eitt fréttabréf kom út á starfsárinu og má nálgast það hér ásamt eldri fréttabréfum: https://www.inl.is/frettabref/ Stefnt er að því að gefa út annað fréttabréf á næstu mánuðum.

Vefur og Facebook-síður 

Að vanda var mikið efni sett inn á Facebook-síður ÞFÍ, annars vegar á síðuna https://www.facebook.com/IcelandicNationalLeague og hins vegar á https://www.facebook.com/groups/ThjodraeknisfelagIslendinga. Það sem er birt á Facebook-síðunum birtist einnig á vef ÞFÍ sem er aðgengilegur hér: https://www.inl.is/

Verkefni og viðburðir

Mörg og fjölbreytt verkefni rata á borð ÞFÍ. Það sem ber helst að nefna að þessu sinni er ákvörðun stjórnar að veita Snorrasjóði umfangsmikinn styrk í tilefni af 25 ára afmæli Snorrasjóðs. Styrkurinn til Snorraverkefnanna er samtals 1.000.000 kr og skiptist þannig: 750.000 krónur verði styrkur til verkefnanna sjálfra. 200.000 krónur fari til 25 ára afmælisritsins sem fyrirhugað er að uppfæra frá 20 ára ritinu og 50 þúsund krónur fari til afmælisveislunnar. Þá er lögð mikil áhersla á að nafn ÞFÍ komi fram í afmælisritinu og kynningarefni afmælisársins. Þá fái formaður ÞFÍ tækifæri til að ávarpa gesti afmælisveislunnar.

Jafnframt styrkti félagið líka Snorri West Alumni Internship Pilot Program sem var alveg nýtt af nálinni. Fyrirmynd þess er verkefnið Snorri Alumni Internship sem hófst árið 2015, en það er unnið í samstarfi við Vesturfarasetrið, sendiráð Kanada, sendiráð Bandaríkjanna og Þjóðræknisfélag Íslendinga. ÞFÍ hefur styrkt Snorri Alumni Internship og borgað fyrir ferðalagið til og frá Hofsósi. Nánari upplýsingar um Snorraverkefnin má nálgast hér.

Félagið hefur styrkt verkefnið Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi sem Svavar heitinn Gestsson átti frumkvæði að. Sjá nánari upplýsingar um það hér og hér má sjá heimasíðu verkefnisins.  

Þjóðræknisþingið

Þjóðræknisþing ÞFÍ var haldið þann 21. október í samstarfi við Árnastofnun í Eddu, húsi íslenskunnar. Það var gert í tilefni af því að opnaður var nýr gagnagrunnur á vegum Árnastofnunar um handrit og bréf íslenskra vesturfara. Þúsundir mynda af íslenskum handritum og bréfum í Kanada og Bandaríkjunum koma fyrir sjónir almennings í fyrsta sinn. ÞFÍ hefur styrkt verkefnið dyggilega frá upphafi, árið 2015. Opnunarþingið og Þjóðræknisþingið var sem sagt haldið í fyrirlestrarsal Eddu.

Dagskráin var fjölbreytt, skemmtileg og fróðleg. Að vanda var boðið upp á góðar veitingar í lok fundar. Formaður ÞFÍ setti þingið, en síðan flutti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra rafrænt ávarp þar sem hún var því miður stödd erlendis. Áslaug Arna var frekar nýlega komin frá Vesturheimi, þar sem hún tók þátt í August of Deuce hátíðarhöldunum í Mountain, Norður-Dakóta og Íslendingadeginum í Gimli, Manitoba, en gaman er að geta þess að þar var skrifað undir samkomulag milli Íslands og Kanada um vinnudvöl ungmenna (e. Youth Mobility) sem veitir ungmennum tækifæri til að ferðast og starfa í allt að 12 mánuði í báðum löndum.

Ávörp á þinginu fluttu einnig Jeannette Menzies, sendiherra Kanada á Íslandi, Carrin Patman, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Guðrún Nordal formaður heiðursráðs ÞFÍ, Ashley Thorvaldson, forseti Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi og Dianne O´Konski, forseti Þjóðræknisfélags Íslendinga í Bandaríkjunum. Einnig var Sandra Björg Ernudóttir með erindi, sem nýlega hafði verið þátttakandi í glænýju verkefni Snorrasjóðs, Snorri West Alumni Internship.

Í lokin var tónlistaratriði, en það bar heitir Á gönguferð um Mikley sem þeir Guðmundur Steinn Gunnarsson og félagar fluttu.

Steinþór Guðbjartsson blaðamaður hjá Morgunblaðinu var gerður að heiðursfélaga Þjóðræknisfélagins. Hulda Karen fráfarandi formaður Þjóðræknisfélagsins veitti Steinþóri heiðursverðaunin og viðurkenningu. Steinþór hóf nám við Manitoba háskóla í Winnipeg í Kanada árið 1973 og útskrifaðist þaðan sem íþróttafræðingur. Þar kynntist hann fyrst Vestur-Íslendingum og hefur haldið sambandi við þá allar götur síðan af mikilli tryggð, í rúmlega 50 ár. Steinþór hefur skrifað greinar í Lögberg-Heimskringlu og var ritstjóri blaðsins er hann tók sér leyfi frá störfum á Morgunblaðinu 2004-2005. Steinþór hefur unnið hjá Morgunblaðinu frá 1986 og hefur skrifað fjölda greina og viðtala í blaðið um vesturíslensk málefni. Steinþór átti sæti í stjórn ÞFÍ 2001-2004 og fékk hann viðurkenningu frá félaginu árið 2010 fyrir kynningu og fræðslu um líf og störf Vestur-Íslendinga.

Þingstjórar voru þau Guðrún Ágústsdóttir, fyrrverandi forseti borgarstjórnar og Hjálmar W. Hannesson, fyrrverandi sendiherra.

Eftir hádegi var einnig þétt dagskrá í tilefni af opnun gagnagrunns „Í fótspor Árna Magnússonar“, sjá hér.

Heiðursráð ÞFÍ

Tilgangur heiðursráðsins er að efla tengsl Íslendinga við afkomendur Íslendinga í Vesturheimi og skipar stjórn Þjóðræknisfélags Íslendinga fulltrúa í ráðið. Í ráðinu eiga sæti heiðursfélagar ÞFÍ, formaður ÞFÍ ásamt fyrrverandi formönnum, einstaklingar sem unnið hafa mikilvægt starf fyrir félagið, fulltrúar stofnana, fyrirtækja og samtaka sem hafa stutt og styrkt félagið og formaður sem stjórn Þjóðræknisfélagsins tilnefnir til tveggja ára í senn. Núverandi formaður Heiðursráðsins er Guðrún Nordal.

Samskipti og samstarf við Vesturheim 

Í stjórn félagsins sitja fulltrúar afkomenda íslenskra landnema í Vesturheimi þau Ashley Thorvaldson og  Douglas Hanson og sækja þau fundi félagsins á Zoom. Tæknin hefur gert það að verkum að allt samstarf við systrafélögin í Vesturheimi er mun meira og markvissara en áður. Félagið hefur einnig átt í góðu samstarfi við Icelandic Roots, stjórn og forseta Íslendingadagsins í Gimli Manitoba og skipuleggjendur Deuce of August hátíðarinnar sem haldin er ár hvert í Mountain, ND, svo fátt eitt sé nefnt.

Soffía Ásgeirs Óskarsdóttir, varaformaður ÞFÍ, tók þátt í hátíðum Vestur-Íslendinga sl. sumar. Pála Hallgrímsdóttir sótti ráðstefnu INLNA sem haldin var í byrjun maí rafrænt og var með kveðju í byrjun hátíðarinnar. Pála, formaður ÞFÍ mun einnig sækja hátíðirnar í sumar, bæði August of Deuce í Mountain og Íslendingahátíðina í Gimli. Hún mun einnig sækja ráðstefnu INLNA í Gimli í Manitoba í Kanada í maí á næsta ári. Þar mun hún flytja systurfélaginu árnaðaróskir og góðar kveðjur stjórnar ÞFÍ.

Snorrasjóður

Í sumar sem leið tóku 15 ungmenni frá Norður-Ameríku þátt í Snorraverkefninu. Þau dvöldu hér á landi frá 11. júní til 15. júlí. Það voru 10 frá Kanada og fimm frá Bandaríkjunum. Einnig kom til landsins 14 manna Snorri Plús hópur en hann skipa einstaklingar sem eru þrjátíu ára og eldri. Þau dvöldu hér dagana 7.- 21. ágúst. Þátttakendur í Snorri Alumni Internship verkefninu voru tveir, Sierra Jenson frá Bandaríkjunum, Norður-Dakóta og John (Jack) Plumley frá Kanada, Calgary. Þau komu til landsins á mismunandi tímum en voru á Íslandi frá því í byrjun júní þar til í lok ágúst og dvöldu á Hofsósi. Jeannette Menzies sendiherra Kanada á Íslandi bauð báðum hópum í heimboð á meðan á dvöl þeirra stóð í Reykjavík.

Það bárust tvær umsóknir í Snorri West verkefnið en því miður drógu þeir umsóknir sínar til baka af persónulegum ástæðum og því var verkefninu aflýst að þessu sinni. Ákveðið var að nýta tækifærið og framkvæma tilraunaverkefni að nafni Snorri West Alumni Internship. Þetta er sambærilegt verkefni og Snorri Alumni Internship og gefur fyrrverandi Snorri West þátttakendum tækifæri til að fara aftur til Norður-Ameríku og mynda sterkari tengsl við vestur-íslenska samfélagið. Sandra Björg Ernudóttir sem tók þátt í Snorri West árið 2018 varð fyrir valinu og varði tveimur vikum í Norður-Dakóta og Manitoba. Hún kenndi íslensku í íslensku sumarbúðum í Gimli auk þess að flokka bækur á bókasafni Icelandic Roots í Norður-Dakóta og sækja Íslendingahátíðina í Gimli.

 

Þrír fulltrúar ÞFÍ sátu í stjórn Snorrasjóðs á starfsárinu. Gísli Sigurðsson tók við sem formaður Snorrasjóðs á aðalfundi Snorrasjóðs, en hann sagði sig frá þeim störfum í byrjun september. Pála Hallgrímsdóttir tók sæti í stjórn Snorrasjóðs að nýju við brotthvarf Gísla Sigurðssonar á haustmánuðum. Auk þess sitja í stjórn Soffía Ásgeirs Óskarsdóttir og Bjarni Þór Þórólfsson. Soffía tók við sem formaður Snorrasjóðs og gegnir því starfi enn.

Julie Summers fyrrum þátttakandi í Snorraverkefninu og stjórnarmeðlimur tók að sér verkefnastjórn hjá Snorrasjóði ásamt Atla Geir Halldórssyni, sem aðstoðaði verkefnastjóra sumrin 2020 og 2021. Atli hefur einnig starfað hjá Norræna félaginu sem aðstoðarverkefnastjóri. Þau deila með sér verkefnastjórn. Julie sagði sig í kjölfarið úr stjórn og tók Mallory Swanson, fyrrum Snorra þátttakandi og Snorri Alumni Intern, sætið hennar.

Þjóðræknisfélagið og Norræna félagið hafa stutt við Snorraverkefnin á einn eða annan hátt um árabil.

Nánari upplýsingar um Snorrasjóð og Snorraverkefnin er að finna á heimasíðu sjóðsins, http://www.snorri.is og á samfélagsmiðlum undir nafninu @thesnorriprogram.

Þakkir og kveðjur: Þjóðræknisfélagið færir utanríkisráðuneytinu og Icelandair kærar þakkir fyrir mikilvægan fjárhagslegan stuðning um árabil sem hefur gert félaginu kleift að sinna umfangsmiklu starfi sínu. Þá þakkar félagið sendiráðum Kanada og Bandaríkjanna á Íslandi og starfsfólki þeirra fyrir mikilsverðan stuðning við starfsemi félagsins. Félagið þakkar einnig samstarfsaðilum í Vesturheimi fyrir gjöfult og gott samstarf jafnt í ár sem og fyrri árum.

Lokaorð:  Mig langar að þakka kærlega stjórn ÞFÍ fyrir viðburðarríkt og ánægjulegt samstarf og góða vináttu. Ég tók við formennsku með skömmum fyrirvara á haustmánuðum, en saman höfum við unnið að því að efla samstarf og samskipti við einstaklinga og samtök afkomenda Íslendinga í Vesturheimi á fjölmörgum sviðum. Einnig vinnum við stöðugt að því að fá fleiri til liðs við félagið, jafnt innanlands sem utan, ekki síst ungt fólk. Félagsmönnum og öllum velunnurum þakkar stjórnin stuðning og tryggð við félagið. Að lokum vil ég þakka Huldu Karen Daníelsdóttur, Sigurði Rúnari Jónmundssyni, Þórði Bjarna Guðjónssyni og Sigurbjörgu Guttormsdóttur sem eru að fara úr stjórn fyrir alla hjálpina, stuðninginn og vel unnin störf.

Fyrir hönd stjórnar ÞFÍ, Pála Hallgrímsdóttir, formaður

 

Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2022 – 2023

Aðalfundur Þjóðræknisfélags Íslendinga var haldinn þriðjudaginn 17. maí 2022, kl. 16.00 í húsnæði utanríkisráðuneytisins að Rauðarárstíg 25. Hulda Karen Daníelsdóttir, formaður félagsins, setti fundinn og bauð fundargesti í sal velkomna og einnig þá sem tóku þátt í fundinum á Zoom. Hulda Karen kynnti dagskrá fundarins sem hafði verið send ásamt skýrslu stjórnar til félagsmanna með tölvupósti nokkru fyrir fundinn. Engar athugasemdir voru gerðar við dagskrána. Hulda Karen tilnefndi Sigurð R. Jónmundsson sem fundarstjóra og Gísla Sigurðsson sem fundarritara. Þar næst tóku við venjuleg aðalfundarstörf, þar sem skýrsla stjórnar um starfsemina 2021-2022 var flutt, tillögur að lagabreytingum voru bornar fram ásamt endurskoðuðum reikningum og ný stjórn kjörin. Tillaga um aðalmenn í stjórn til tveggja ára var eftirfarandi: Ásdís Halla Bragadóttir, Sigurbjörg A. Guttormsdóttir og Sigurður Rúnar Jónmundsson og um varamenn í stjórn til eins árs: Þórður Bjarni Guðjónsson, Bjarni Þór Þórólfsson og Kristín M. Jóhannsdóttir. Fulltrúar afkomenda íslenskra landnema í Vesturheimi eru þær Bev Arason-Gaudet og Dianne O‘Konski. Áfram sitja í stjórninni næsta starfstímabil þau Hulda Karen Daníelsdóttir, Soffía Óskarsdóttir, Gísli Sigurðsson og Jón E. Gústafsson sem voru kosin 2021. Guðrún Ágústsdóttir var kosin formaður kjörnefndar. Með henni í nefndinni eru Hjálmar W. Hannesson og Steinn Logi Björnsson. Skoðunarmenn reikninga til eins árs eru Ásgeir Jónsson og María Ingibjörg Jónsdóttir. Tillaga kjörnefndar var samþykkt óbreytt með öllum greiddum atkvæðum. Undir liðnum önnur mál á dagskrá fundarins, þakkaði formaður þeim Þorvarði Guðlaugssyni og Erin Jones fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og færði þeim blómvendi. Bæði sátu í stjórn félagsins í fjölmörg ár; Þorvarður var gjaldkeri í 13 ár, en Erin sat í stjórn í 5 ár. Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum flutti Ásdís Halla Bragadóttir, ráðuneytisstjóri, erindi um bók sína Læknirinn í Englaverksmiðjunni sem gerist að hluta til í Vesturheimi. Kaffi og meðlæti var í boði utanríkisráðuneytisins.

Starfsemi félagsins á starfsárinu var umfangsmikil og fjölbreytt eins og nánar verður greint frá hér á eftir. Frá því á aðalfundinum þann 17. maí hafa verið haldnir tíu stjórnarfundir, sjö af þeim á Zoom, en þrír í húsnæði Búseta, Síðumúla 10. Fjöldi félagsmanna er nú 427, auk u.þ.b. 100 maka. Félagið hefur aðgang að skrifstofuaðstöðu sem Snorrasjóður leigir í húsnæði Norræna félagsins, Óðinsgötu 7, sem er jafnframt heimilisfang ÞFÍ.                                                 

Fræðslufundir:  Á fræðslufundi félagsins sem haldinn var miðvikudaginn 30. nóvember í húsnæði utanríkisráðuneytisins flutti dr. Dagný Kristjánsdóttir erindið „Jóhann Magnús Bjarnason og þjóðernið“ og dr. Eyrún Eyþórsdóttir erindið „Brasilíufararnir og afkomendur þeirra“. Dagný sagði frá því að Jóhann Magnús hefði samið leikrit, ljóð og skáldsögur, en þar á meðal voru sögurnar Eiríkur Hansson, Brasilíufararnir og Í Rauðárdalnum. Dagný sagði

jafnframt að þegar hún kafaði ofan í feril skáldsins, hefði næstum allt sem hún fann um hann komið henni á óvart. Eyrún varði doktorsritgerð sína í mannfræði, Afkomendur Brasilíufaranna: Íslensk sjálfsmyndasköpun í Brasilíu, við félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands í janúar á sl. ári og byggði erindi sitt á henni. Hún sagði frá rannsókninni, Brasilíuförunum sjálfum, hvernig stóð á því að þeir fóru utan og hvernig hefði gengið hjá þeim. Einnig fjallaði hún á sérlega skemmtilegan hátt um afkomendur þeirra í samtímanum. Bæði erindin voru áhugaverð og skapaðist heilmikil umræða um þau á fundinum. Á fundinum var borið fram kaffi og meðlæti í boði utanríkisráðuneytisins.

Fréttabréf: Tvö fréttabréf komu út á starfsárinu og má nálgast þau hér ásamt eldri fréttabréfum: https://www.inl.is/frettabref/

Vefur og Facebook-síður: Að vanda var mikið efni sett inn á Facebook-síður ÞFÍ, annars vegar á síðuna https://www.facebook.com/IcelandicNationalLeague og hins vegar á https://www.facebook.com/groups/ThjodraeknisfelagIslendinga. Það sem er birt á Facebook-síðunum birtist einnig á vef ÞFÍ sem er aðgengilegur hér: https://www.inl.is/

Verkefni og viðburðir: Mörg og fjölbreytt verkefni rata á borð ÞFÍ. Það sem ber helst að nefna að þessu sinni er ákvörðun stjórnar um að veita Framhaldsskólanum á Laugum styrk til að efla og viðhalda áfanganum Vesturferðir Íslendinga sem Ragna Heiðbjört Ingunnardóttir, kennari við skólann, hefur mótað og kennt í nokkur ár. Jafnframt hefur félagið veitt

Snorrasjóði styrki undanfarin ár og mun á þessu ári einnig styrkja verkefnið Snorri West Alumni Internship pilot program sem er alveg nýtt af nálinni. Fyrirmynd þess er verkefnið Snorri Alumni Internship sem hófst árið 2015, en það er unnið í samstarfi við Vesturfarasetrið, sendiráð Kanada, sendiráð Bandaríkjanna og Þjóðræknisfélag Íslendinga. Nánari upplýsingar um Snorraverkefnin má nálgast hér: http://www.snorri.is/Félagið styrkir sömuleiðis verkefnið Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi sem Svavar heitinn Gestsson átti frumkvæði að og hófst líka árið 2015. Sjá nánari upplýsingar um það hér: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/11/17/I-fotspor-Arna-Magnussonar-i-Vesturheimi/ og hér: https://www.arnastofnun.is/is/frettir/i-fot-spor-arna-magnus-son-ar-i-vest-ur-heimi

Stjórn félagsins lagði mikla vinnu í að undirbúa mögulega hópferð félagsmanna og annarra áhugasamra á árlega ráðstefnu Icelandic National League of North America, systurfélags ÞFÍ, sem haldin verður í Banff í Albertafylki í Kanada í maí á þessu ári. Þrátt fyrir umtalsverða auglýsingaherferð og sanngjarnt verðlag, náðist ekki að mynda nægilega stóran hóp til þess að af ferðinni gæti orðið. Hulda Karen Daníelsdóttir, formaður ÞFÍ, mun engu að síður sækja ráðstefnuna.

Helstu viðburðir félagsins fyrir utan fræðslufundi eru aðalfundur í maí og árlegt þjóðræknisþing.

Þjóðræknisþingið: Þjóðræknisþing ÞFÍ var haldið þann 21. ágúst á Hótel Reykjavík Natura. Dagskráin var fjölbreytt og skemmtileg að vanda og veitingarnar góðar. Formaður ÞFÍ setti þingið, en síðan flutti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherrra ávarp og var það birt í heild sinni í fréttabréfi félagsins í október. Þórdís Kolbrún var nýkomin frá Vesturheimi, en þar tók hún þátt í Deuce of August hátíðarhöldunum í Mountain, Norður-Dakóta og Íslendingadeginum í Gimli, Manitóba.

Ávörp á þinginu fluttu einnig Jeannette Menzies, sendiherra Kanada á Íslandi, Michelle Yerkin, varasendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Guðrún Nordal, formaður heiðursráðs ÞFÍ, Stefan Jonasson, fyrrv. forseti Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi og Dianne O‘Konski, forseti Þjóðræknisfélags Íslendinga í Bandaríkjunum. Á þinginu voru flutt eftirfarandi erindi: Fæddur til að fækka tárum. KÁINN: Ævi og ljóð flutt af Jóni Hjaltalín, sagnfræðingi, Stephans G. Stephanssonar styrktarsjóður HÍ: Tilurð og markmið flutt af Birnu Bjarnadóttur, rannsóknasérfræðingi, Saga Vestur-Íslendinga vekur áhuga framhaldsskólanema flutt af Rögnu Heiðbjörtu Ingunnardóttur, framhaldsskólakennara og Snorrasjóður flutt af Pálu Hallgrímsdóttur og Jody Arman-Jones. Lestina ráku ungir íslenskir þátttakendur í Snorra West verkefninu sem sögðu frá ferð sinni áÍslendingaslóðir í Vesturheimi, sl. sumar. Á þinginu var Halldór Árnason, fyrrverandi formaður Þjóðræknisfélagsins, gerður að heiðursfélaga og tók hann á móti skjali því til staðfestingar. Halldór þakkaði heiðurinn sem honum var sýndur. Þingstjórar voru þau Guðrún Ágústsdóttir, fyrrverandi forseti borgarstjórnar og Hjálmar W. Hannesson, fyrrverandi sendiherra.

Heiðursráð ÞFÍ:  Tilgangur heiðursráðsins er að efla tengsl Íslendinga við afkomendur Íslendinga í Vesturheimi og skipar stjórn Þjóðræknisfélags Íslendinga fulltrúa í ráðið. Í ráðinu eiga sæti heiðursfélagar ÞFÍ, formaður ÞFÍ ásamt fyrrverandi formönnum, einstaklingar sem unnið hafa mikilvægt starf fyrir félagið, fulltrúar stofnana, fyrirtækja og samtaka sem hafa stutt og styrkt félagið og formaður sem stjórn Þjóðræknisfélagsins tilnefnir til tveggja ára í senn. Núverandi formaður heiðursráðsins er Guðrún Nordal.

Samskipti og samstarf við Vesturheim: Í stjórn félagsins sitja fulltrúar afkomenda íslenskra landnema í Vesturheimi þær Bev Arason-Gaudet og Dianne O‘Konski og sækja þær fundi félagsins á Zoom. Þess utan situr formaðurinn reglulega Zoom fundi með þeim Dianne O‘Konski, formanni INLUS og Ashley Thorvaldson, formanni INLNA. Tæknin hefur gert það að verkum að allt samstarf við systurfélögin í Vesturheimi er mun meira og markvissara en áður. Félagið hefur einnig átt í góðu samstarfi við Icelandic Roots, stjórn og forseta Íslendingadagsins í Gimli Manitoba og skipuleggjendur Deuce of August hátíðarinnar sem haldin er ár hvert í Mountain, ND, svo fátt eitt sé nefnt.

Hulda Karen Daníelsdóttir, formaður ÞFÍ, tók þátt í hátíðum Vestur-Íslendinga sl. sumar. Hún mun einnig sækja ráðstefnu INLNA í Banff í Albertafylki í Kanada í maí á þessu ári, eins og fram kemur hér fyrir ofan. Þar mun hún flytja systurfélaginu árnaðaróskir og góðar kveðjur stjórnar ÞFÍ.                                                                                                                              

Snorrasjóður: Í sumar sem leið tóku 22 ungmenni frá Norður-Ameríku þátt í Snorraverkefninu. Þau dvöldu hér á landi frá 12. júní til 15. júlí. Einnig kom til landsins 13 manna Snorri Plús hópur en hann skipa einstaklingar sem eru þrjátíu ára og eldri. Þau dvöldu hér dagana 8.- 22. ágúst. Þátttakendur í Snorri Alumni Internship verkefninu voru tveir og komu til landsins í byrjun júní og dvöldu á Hófsósi þar til í lok júlí og tvö íslensk ungmenni héldu utan til Norður-Ameríku að taka þátt í Snorri West verkefninu. Þjóðræknisfélag Íslendinga ásamt Norræna félaginu buðu ungu Snorrunum upp á léttan kvöldverð í lok júní í húsi Norræna félagsins á Óðinsgötu, en bæði félögin hafa stutt við Snorraverkefnin á einn eða annan hátt um árabil. Kvöldið fyrir brottför ungu Snorranna, bauð Jeannette Menzies, sendiherra Kanada á Íslandi, þeim til veislu þar sem hver og einn þátttakandi flutti erindi um dvöl sína á landinu.

Þrír fulltrúar ÞFÍ sátu í stjórn Snorrasjóðs á starfsárinu. Auk Huldu Karenar Daníelsdóttur sem sagði af sér formennskunni í desember á síðasta ári, voru það Soffía Óskarsdóttir og Ástrós Signýjardóttir. Pála Hallgrímsdóttir fyrrverandi verkefnastjóri sjóðsins tók við formennskunni af Huldu Karen.

Nánari upplýsingar um Snorrasjóð og Snorraverkefnin er að finna á heimasíðu sjóðsins, http://www.snorri.is og á samfélagsmiðlum undir nafninu @thesnorriprogram.

Þakkir og kveðjur: Þjóðræknisfélagið færir utanríkisráðuneytinu og Icelandair kærar þakkir fyrir mikilvægan fjárhagslegan stuðning um árabil sem hefur gert félaginu kleift að sinna umfangsmiklu starfi sínu. Þá þakkar félagið sendiráðum Kanada og Bandaríkjanna á Íslandi og starfsfólki þeirra fyrir mikilsverðan stuðning við starfsemi félagsins. Félagið þakkar einnig samstarfsaðilum í Vesturheimi fyrir gjöfult og gott samstarf jafnt í ár sem á fyrri árum.

Lokaorð:  Nú á þessum tímamótum þegar ég lýk störfum sem formaður ÞFÍ, vil ég þakka samstarfsfólki mínu í stjórn ÞFÍ fyrir ánægjulega samvinnu og góða vináttu. Saman höfum við unnið að því að efla samstarf og samskipti Íslendinga við einstaklinga og samtök afkomenda Íslendinga í Vesturheimi á fjölmörgum sviðum. Einnig vinnum við stöðugt að því að fá fleiri til liðs við félagið, jafnt innanlands sem utan, ekki síst ungt fólk. Félagsmönnum og öllum velunnurum þakkar stjórnin stuðning og tryggð við félagið.

F.h. stjórnar ÞFÍ,  Hulda Karen Daníelsdóttir, formaður

Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2021 – 2022


Aðalfundur Þjóðræknisfélags Íslendinga (ÞFÍ) var haldinn með fjarfundarbúnaði þriðjudaginn 25. maí 2021 og hófst kl. 16.00. Hulda Karen Daníelsdóttir formaður félagsins setti fundinn, bauð fundarmenn velkomna og útskýrði að fundurinn væri haldinn með þessum hætti, þar sem COVID-19 hamlaði venjubundnu samkomuhaldi. Hulda Karen kynnti dagskrá fundarins sem hafði verið send ásamt skýrslu stjórnar til félagsmanna með tölvupósti nokkru fyrir fundinn. Engar athugasemdir voru gerðar við dagskrána. Hulda Karen tilnefndi Kristínu M. Jóhannsdóttur sem fundarstjóra og Gísla Sigurðsson sem fundarritara. Þar næst tóku við venjuleg aðalfundarstörf, þar sem skýrsla stjórnar um starfsemina 2020-2021 var flutt og ný stjórn kjörin.

Tillaga um aðalmenn í stjórn til tveggja ára: Hulda Karen Daníelsdóttir, Gísli Sigurðsson og Jón E. Gústafsson. Varamenn í stjórn til eins árs: Þórður Bjarni Guðjónsson, Kristín M. Jóhannsdóttir og Sandra Björg Ernudóttir. Fulltrúar afkomenda íslenskra landnema í Vesturheimi: Bev Arason-Gaudet, Edmonton, Alberta og Dianne O‘Konski, Lakeville, Minnesota. Áfram sitja í stjórninni næsta starfstímabil þau Þorvarður Guðlaugsson, Erin Jones og Sigurður Rúnar Jónmundsson, sem voru kosin 2020. Guðrún Ágústsdóttir var kosin formaður kjörnefndar. Með henni í nefndinni eru Hjálmar W. Hannesson og Steinn Logi Björnsson. Skoðunarmenn reikninga til eins árs eru Sigurður Þórðarson og Ásgeir Jónsson. Tillaga kjörnefndar var samþykkt óbreytt með öllum greiddum atkvæðum. Að loknum aðalfundarstörfum flutti Helga Ögmundardóttir erindið Þegar Íslendingar hittu frumbyggja Norður-Ameríku sem er aðgengilegt hér: https://www.youtube.com/watch?v=UK8QkN2-IVI

Þrátt fyrir viðvarandi COVID-19 ástand lá starfsemi félagsins ekki niðri. Að meðaltali var einn stjórnarfundur haldinn í mánuði, allir á Zoom nema einn sem haldinn var 12. október í Veröld – húsi Vigdísar og á Zoom. Aðrir hefðbundnir viðburðir svo sem Þjóðræknisþingið sem til stóð að halda sunnudaginn 21. nóvember og þátttaka formanns í ráðstefnum og hátíðarhöldum afkomenda Vestur-Íslendinga í Vesturheimi féllu niður.

Hefðbundnar heimsóknir samstarfsaðila ÞFÍ í Vesturheimi hingað til lands, féllu sömuleiðis niður, nema heimsókn Dianne O‘Konski forseta INLUS í nóvember. Vonir standa til að formenn INLNA og INLUS komi til landsins og ávarpi þing ÞFÍ sem haldið verður þann 21. ágúst 2022.

Fræðslufundir: Á fræðslufundi félagsins sem haldinn var 15. mars sl. hleypti Jónas Þór nýjum vef, https://vesturfarar.is, af stokkunum og kynntiinnihaldhans. Fundurinnsemhaldinnvar í húsi utanríkisráðuneytisins var vel sóttur bæði á vettvangi og á netinu, en erindi Jónasar var streymt.

Fréttabréf: Tvö fréttabréf komu út og má nálgast þau hér ásamt eldri fréttabréfum: https://www.inl.is/frettabref 
Vefur og Facebook-síður: Mikið efni hefur verið sett inn á Facebook-síður ÞFÍ sem eru tvær. Önnur síðan er svokölluð like-síða þar sem settar eru inn tilkynningar, greinar og annað sem gæti vakið áhuga fylgjenda. Slóðin á þá síðu er https://www.facebook.com/IcelandicNationalLeague. Hin síðan er í raun hópur þar sem meðlimir geta sjálfir sett inn efni og tekið þátt í umræðum. Slóðin á hópinn er: https://www.facebook.com/groups/ThjodraeknisfelagIslendinga. Það sem er birt á Facebook-síðunum birtist einnig á vef ÞFÍ sem er aðgengilegur hér: https://www.inl.is/

Verkefni og viðburðir: Mörg og fjölbreytt verkefni rata á borð ÞFÍ. Það sem ber helst að nefna að þessu sinni er ákvörðun stjórnar um að veita tveimur skólum og einum einstaklingi styrki, hvern um sig að fjárhæð 200.000 krónur, til að vinna verkefni sem fjalla á einn eða annan hátt um Vestur-Íslendinga og afkomendur þeirra. Styrkhafar eru Landakotsskóli, Framhaldsskólinn á Laugum og Bryndís Víglundsdóttir vegna verkefna í grunnskólum í Garðabæ. Helstu viðburðir félagsins eru aðalfundur í maí og þing í ágúst eins og tíðkast hefur.

Heiðursráð ÞFÍ: Stjórn ÞFÍ tilnefndi Guðrúnu Nordal formann ráðsins til tveggja ára og tók hún við formennskunni af Halldóri Árnasyni á ársfundi ráðsins sem haldinn var 10. nóvember. Heiðursráðið hefur starfað frá árinu 2013 og kemur saman árlega. Starfsreglur ráðsins voru fyrst settar á stjórnarfundi ÞFÍ 19. ágúst 2013, en breytingar á þeim voru samþykktar á stjórnarfundi ÞFÍ þann 5. apríl sl. Nokkrir fulltrúar heiðursráðsins ásamt formanni og Katelin Parsons, verkefnisstjóra verkefnisins Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi, mættu á fund ÞFÍ þann 15. febrúar. Á fundinum gerðu Guðrún og Katelin grein fyrir verkefninu Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi sem Svavar heitinn Gestsson átti frumkvæði að og hófst árið 2015. Einnig samþykkti stjórn ÞFÍ að veita verkefninu veglegan styrk á þessu og næsta ári. Ný í ráðinu eru þau Steinþór Guðbjartsson og Elín Hirst.

Samskipti og samstarf við Vesturheim: Vegna COVID faraldursins hafa samskipti ÞFÍ við afkomendur Íslendinga í Vesturheimi mestmegnis farið fram á netinu á Zoom og Facebook. Formaður ÞFÍ ávarpaði þing INLNA í fyrra og einnig 30. apríl sl. þegar það var haldið á Zoom og færði við þau tækifæri INLNA kveðjur ÞFÍ. Einnig ávarpaði formaðurinn hátíðargesti Deuce of August sem haldin er ár hvert í Mountain ND, en að þessu sinni var hátíðin rafræn. Þrátt fyrir ástandið bar formaðurinn gæfu til að hitta Dianne O‘Konski formann INLUS þegar hún kom til landsins sl. haust. Einnig átti formaður fund í Reykjavík sl. sumar með Gwen Sigrid Morgan sem nú er formaður The Icleandic Club of Toronto. Mestu máli skiptir þó upp á samskiptin að gera að fulltrúar INLNA og INLUS sitji í stjórn ÞFÍ eins og nú er hefð fyrir. Formaðurinn mun hitta á Zoom fundi í byrjun maí eða júní nýjan formann INLNA, Ashley Thorvaldson og formann INLUS, Dianne O‘Konski, til að ræða samstarfið næstu árin.

Snorraverkefnin: Þjóðræknisfélag Íslendinga og Norræna félagið stofnuðu í sameiningu sjálfseignarstofnunina Snorrasjóð sem hefur verið starfrækt frá árinu 1999 og rekur Snorraverkefnin. Megintilgangur sjóðsins er að standa að undirbúningi og framkvæmd Snorraverkefnanna, en þar sem COVID hefur komið í veg fyrir framkvæmdir sl. tvö ár, var ákveðið að ferðast innanlands með hóp íslenskra ungmenna, þátttakenda í Snorri West verkefninu, sem ekki komst utan sumarið 2020. Eldri Snorrar, þátttakendur í Snorraverkefnum á árum áður, tóku einnig þátt ásamt fleiri áhugasömum, en í hópnum voru alls 17 ferðalangar sem heimsóttu Hofsós og fleiri staði. Af öðrum fréttum af Snorrasjóði má helst nefna að skipulagsskrá hans var endurskoðuð og ný leiðarljós um samstarf Þjóðræknisfélags Íslendinga, Norræna félagsins og Snorrasjóðs voru samin og samþykkt af öllum sem hlut eiga að máli. Einnig afhenti formaður sjóðsins ásamt verkefnastjóra Lilju Dögg Alfreðsdóttur menntamálaráðherra 20 ára afmælisrit sjóðsins. Þrír fulltrúa ÞFÍ sitja í stjórn sjóðsins. Auk Huldu Karenar Daníelsdóttur, sem er formaður sjóðsins, eru það Soffía Óskarsdóttir og Ástrós Signýjardóttir. ÞFÍ styrkir sjóðinn á ýmsan hátt, m.a. með veglegum styrkjum hin síðustu ár. Allt bendir til þess að fjölmargir Snorrar, Snorri Plus og Snorri Alumni Internship þátttakendur komi til landsins í sumar. Frekari upplýsingar um Snorrasjóð og Snorraverkefnin er að finna á heimasíðu sjóðsins, http://www.snorri.is og á samfélagsmiðlum undir nafninu @thesnorriprogram.

Þakkir og kveðjur: Þjóðræknisfélagið færir utanríkisráðuneytinu og Icelandair kærar þakkir fyrir mikilvægan fjárhagslegan stuðning um árabil sem hefur gert félaginu kleift að sinna umfangsmiklu starfi sínu. Þá þakkar félagið sendiráðum Kanada og Bandaríkjanna á Íslandi og starfsfólki þeirra fyrir mikilsverðan stuðning við starfsemi félagsins. Félagið þakkar einnig samstarfsaðilum í Vesturheimi fyrir gjöfult og gott samstarf jafnt í ár sem á fyrri árum.

Lokaorð: Ég vil þakka samstarfsfólki mínu í stjórn ÞFÍ fyrir ánægjulega samvinnu. Saman höfum við unnið að því að efla samstarf og samskipti Íslendinga við einstaklinga og samtök afkomenda Íslendinga í Vesturheimi á fjölmörgum sviðum. Einnig vinnum við stöðugt að því að fá fleiri aðila til liðs við félagið, ekki síst ungt fólk.

Félagsmönnum öllum þakkar stjórnin stuðning og tryggð við félagið.

F.h. stjórnar ÞFÍ, Hulda Karen Daníelsdóttir, formaður

Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið

2020 – 2021

Aðalfundur Þjóðræknisfélags Íslendinga (ÞFÍ) var haldinn með fjarfundarbúnaði sunnudaginn 23. ágúst 2020 og hófst kl. 13.10. Hulda Karen Daníelsdóttir formaður félagsins setti fundinn, bauð fundarmenn velkomna og útskýrði að fundurinn væri haldinn með þessum hætti, þar sem COVID-19 hamlaði venjubundnu samkomuhaldi. Hulda Karen kynnti dagskrá fundarins, sem hafði verið send ásamt skýrslu stjórnar til félagsmanna með tölvupósti nokkru fyrir fundinn. Engar athugasemdir voru gerðar við dagskrána. Hún tilnefndi Svavar Gestsson sem fundarstjóra og Sigurð R. Jónmundsson sem fundarritara. Þar næst tóku við venjuleg aðalfundarstörf, þar sem skýrsla stjórnar um starfsemina 2019-2020 var flutt og ný stjórn kjörin. Aðalmenn í stjórn til tveggja ára eru Þorvarður Guðlaugsson, Erin Jones og Sigurður Rúnar Jónmundsson. Varamenn í stjórn til eins árs eru Þórður Bjarni Guðjónsson, Kristín M. Jóhannsdóttir og Sandra Björg Ernudóttir. Fulltrúar afkomenda íslenskra landnema í Vesturheimi eru Joel Friðfinnsson, Arborg, Manitoba og Dianne O’Konski, Lakeville, Minnesota, núverandi formaður INLUS sem tók við af Sunnu Pam Olafson Furstenau í nóvember á sl. ári. Áfram sitja í stjórninni næsta starfstímabil þau Hulda Karen Daníelsdóttir formaður, Soffía Óskarsdóttir varaformaður, Gísli Sigurðsson ritari og Jón E. Gústafsson meðstjórnandi, sem voru kosin 2019. Guðrún Ágústsdóttir var kosin formaður kjörnefndar og tekur hún við af Hjálmari W. Hannessyni. Með henni í nefndinni eru Markús Örn Antonsson og Steinn Logi Björnsson. Skoðunarmenn reikninga til eins árs eru Sigurður Þórðarson og Ásgeir Jónsson. Engar aðrar tillögur bárust og ofangreind tillaga kjörnefndar var samþykkt samhljóða.

Þrátt fyrir viðvarandi COVID-19 ástand lá starfsemi félagsins ekki niðri. Að meðaltali var haldinn einn stjórnarfund í mánuði á Zoom, en aðrir hefðbundnir viðburðir og verkefni féllu niður. Má þar helst nefna þingið sem haldið hefur verið í ágúst á undanförnum árum, fræðslufundi og þátttöku formanns í ráðstefnum og hátíðarhöldum afkomenda Vestur-Íslendinga í Vesturheimi. Hefðbundnar heimsóknir samstarfsaðila ÞFÍ í Vesturheimi hingað til lands, féllu sömuleiðis niður. Á stjórnarfundunum var fjölmargt til umræðu, þar á meðal International Visits Program, Núna now, möguleg styrkjaveiting til skóla sem fræða nemendur sína um Vestur-Íslendinga og afkomendur þeirra og hvort endurskoða ætti nafn Þjóðræknisfélagsins því misskilnings um merkingu þess gætir hjá mörgum, ekki síst ungu fólki. Á fundi stjórnar sem haldinn var 26. janúar var Svavars Gestssonar minnst. Í fundargerð skráði ritari  m.a. eftirfarandi: Með sanni má segja að minningin um Svavar, mælsku hans, velvild og alþýðleika, er ljóma slegin og hans verður sárt saknað.

Vefur ÞFÍ: Nokkrir stjórnarliðar tóku að sér að skoða vefinn og skrifuðu stutta skýrslu um hvað betur mætti fara. Nú er unnið er að því að uppfæra og bæta vefinn. https://inl.is.

Fréttabréf: Frá síðasta aðalfundi hefur eitt fréttabréf ÞFÍ komið út og má nálgast það á vef félagsins https://inl.is. Eldri fréttabréf verða einnig aðgengileg á vefnum. 

Verkefni og viðburðir: Mörg og fjölbreytt verkefni rata inn á borð ÞFÍ. Kvikmyndaskóli Íslands leitaði til félagsins í þeim tilgangi að kynna fyrirhugaða alþjóðadeild við skólann og skoða mögulega tengingu við afkomendur Íslendinga í Vesturheimi. Þjóðskjalasafnið sendi mynd af gömlum frímerkjum/límmiðum til að forvitnast um hvort Þjóðræknisfélag Íslendinga í Vesturheimi hefði staðið á bak við útgáfu þeirra. Einstaklingur velti fyrir sér hvað hann ætti að gera við myndaalbúm með gömlum myndum frá Vesturheimi, skemmtikraftur bað um aðstoð við að koma fram á viðburðum afkomenda Íslendinga í Vesturheimi og íslenskur meistaranemi í mannfræði við háskóla í Bandaríkjunum hafði samband vegna lokaverkefnis, svo fátt eitt sé nefnt. Öllum erindum var svarað og reynt að aðstoða viðkomandi eftir bestu getu. Í Framhaldsskólanum á Laugum var kennt námskeið um Vestur-Íslendinga og afkomendur þeirra. ÞFÍ veitti kennara og nemendum styrk til að heimsækja Vesturfarasetrið á Hofsósi. Jafnframt hefur stjórnin ákveðið að veita fjórum skólum styrk til þess að vinna verkefni sem fjalla á einn eða annan hátt um Vestur-Íslendinga og afkomendur þeirra.

ÞFÍ vakti á Facebook-síðum og vef félagsins athygli á fjölmörgu sem viðkemur áherslum og markmiðum félagsins um að efla samstarf og tengsl við fólk af íslenskum ættum í Vesturheimi. Þetta efni er aðgengilegt hér: https://www.facebook.com/groups/ThjodraeknisfelagIslendinga

Heiðursráð ÞFÍ: Samkvæmt starfsreglum Heiðursráðs Þjóðræknisfélags Íslendinga er tilgangur þess „að efla tengsl Íslendinga við afkomendur Íslendinga í Vesturheimi og treysta fjárhagsstöðu félagsins.“ Heiðursráðið hefur starfað frá árinu 2013 og kemur saman árlega, en vegna COVID-19 var ekki haldinn fundur hjá ráðinu á árinu 2020. Formaður ráðsins er Halldór Árnason sem var gestur stjórnarfundar ÞFÍ þann 20. apríl sl. Heiðursfélagar ráðsins eru þau Almar Grímsson, Atli Ásmundsson, David Gislason, Eric Stefanson, Gail Einarson-McCleerey, Sunna Pam Furstenau, Vigdís Finnbogadóttir og Svavar heitinn Gestsson sem lést í janúar á þessu ári.

Samskipti og samstarf við Vesturheim: Vegna COVID-19 í fyrra og það sem af er þessu ári, hafa samskipti ÞFÍ við afkomendur Íslendinga í Vesturheimi mestmegnis farið fram á netinu á Zoom og Facebook. Það eina sem talist getur jákvætt við ástandið er að í auknum mæli sitja ýmsir gestir, sem búa jafnvel ekki á Íslandi, stjórnarfundi félagsins á þennan hátt. Til að mynda sat Natalie Guttormsson stjórnarfund þann 26. janúar og kynnti stjórninni uppfærðan vef Snorraverkefnanna, Stefan Jonasson formaður INLNA og ritstjóri Lögbergs-Heimskringlu sat stjórnarfund þann 23. mars og Guðmundur Árni Stefánsson aðalræðismaður Íslands í Winnipeg  var gestur fundar þann 20. apríl.

Snorraverkefnin: Þjóðræknisfélagið og Norræna félagið stofnuðu í sameiningu sjálfseignarstofnunina Snorrasjóð sem hefur verið starfrækt frá árinu 1999. Undir Snorrasjóð falla verkefnin Snorri, Snorri Plus, Snorri West og Snorri Alumni Internship. Stjórn stofnunarinnar er skipuð fimm fulltrúum, einn er tilnefndur af stjórn Norræna félagsins (NF), einn skipaður af NF og ÞFÍ sameiginlega, einn er frá Icelandic National League (INL) í Norður-Ameríku og einn er fulltrúi nemenda/þátttakenda. Að auki tilnefna stofnendur hvor um sig einn varamann. Hulda Karen Daníelsdóttir er formaður sjóðsins, Soffía Óskarsdóttir er varaformaður en aðrir í stjórn eru Hrannar Björn Arnarsson, Ástrós Signýjardóttir, Ásdís Eva Hannesdóttir, Julie Sanders og Jody Arman-Jones. Pála Hallgrímsdóttir er verkefnastjóri Snorraverkefnanna.

Vegna COVID-19 var öllum Snorraverkefnunum aflýst árið 2020 og öllum nema Snorri Plus verkefninu aflýst árið 2021. Snorri Plus verkefninu, sem yfirleitt fer fram í ágústmánuði, hefur verið frestað fram í september. Vonast er til þess að af því geti orðið og að ekki þurfi að aflýsa því eins og hinum Snorraverkefnunum. Engu að síður og þrátt fyrir ástandið hafa þær Jody Arman-Jones, Julie Summers, Blair Lockhart, Natalie Guttormsson og Pála Hallgrímsdóttir uppfært og gert miklar á endurbætur á snorri.is vefnum. Þær hafa unnið þrekvirki og eiga sannarlega hrós skilið. Einnig gerði stjórn Snorrasjóðs, í nánu samstarfi við stjórnir ÞFÍ og NF, drög að breytingum á skipulagsskrá sjóðsins og sendi sýslumanni. Gert er ráð fyrir að breytingarnar verði samþykktar. Bæði ÞFÍ og NF veittu Snorraverkefninu fjárhagslegan stuðning á sl. ári. Skipulagning vegna Snorraverkefna fyrir árið 2022 er hafin og því ber að fagna.

Þakkir og kveðjur: Þjóðræknisfélagið færir utanríkisráðuneytinu og Icelandair kærar þakkir fyrir mikilvægan fjárhagslegan stuðning um árabil sem hefur gert félaginu kleift að sinna umfangsmiklu starfi sínu. Þá þakkar félagið sendiráðum Kanada og Bandaríkjanna á Íslandi og starfsfólki þeirra fyrir mikilsverðan stuðning við starfsemi félagsins. Félagið þakkar einnig samstarfsaðilum í Vesturheimi fyrir gjöfult og gott samstarf jafnt í ár sem á fyrri árum.

Lokaorð:  Ég vil þakka samstarfsfólki mínu í stjórn ÞFÍ fyrir ánægjulega samvinnu. Saman höfum við unnið að því að efla samstarf og samskipti Íslendinga við einstaklinga og samtök afkomenda Íslendinga í Vesturheimi á fjölmörgum sviðum. Einnig vinnum við stöðugt að því að fá fleiri aðila til liðs við félagið, ekki síst ungt fólk.

Félagsmönnum öllum þakkar stjórnin stuðning og tryggð við félagið.

F.h. stjórnar ÞFÍ,  Hulda Karen Daníelsdóttir, formaður

Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2019 – 2020

Aðalfundur Þjóðræknisfélags Íslendinga (ÞFÍ) var haldinn í utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg 28. febrúar 2019. Fundurinn hófst með venjulegum aðalfundarstörfum, þar sem skýrsla stjórnar um starfsemina 2018-2019 var flutt og ný stjórn kjörin. Hulda Karen Daníelsdóttir var kjörin formaður félagsins og með henni í stjórn þau Gísli Sigurðsson, Jón E. Gústafsson, Soffía Ásgeirs Óskarsdóttir, Erin Jones, Þorvarður Guðlaugsson og Sigurður Rúnar Jónmundsson. Varamenn í stjórn eru Sandra Björg Ernudóttir, Helga Guðmundsdóttir og Kristín M. Jóhannsdóttir. Stjórnarmenn frá Norður-Ameríku eru Jóel Friðfinnsson frá Manitóba í Kanada og Sunna Pam Furstenau frá Norður-Dakóta í Bandaríkjunum. Skoðunarmaður reikninga var kjörinn Sigurður Þórðarson. Fráfarandi formanni, Hjálmari W. Hannessyni, var þakkað fyrir vel unnin störf í þágu ÞFÍ. Fráfarandi  formaður er sjálfkrafa í stjórninni fyrsta starfsárið eftir að hann hættir formennskunni en Hjálmar hefur auk þess haldið áfram öðrum störfum fyrir ÞFÍ og er til að mynda núverandi formaður kjörnefndar.

Að loknum aðalfundarstörfum og kaffihléi sem var í boði utanríkisráðuneytisins, flutti dr. Birna Bjarnadóttir, fyrrverandi forstöðumaður Íslenskudeildar Manitóbaháskóla og núverandi verkefnastjóri við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, erindið: Íslenskudeildin vestan hafs í sögu og samtíð. Bókin Sigurtunga – Vesturíslenskt mál og menning var kynnt á fundinum af prófessor emeritus Höskuldi Þráinssyni, en hann er einn þriggja ritstjóra bókarinnar.

Að vanda var starfsemi ÞFÍ umfangsmikil og fjölbreytt eins og nánar verður greint frá hér á eftir og hélt stjórnin að meðaltali einn stjórnarfund í mánuði. Fjöldi félagsmanna er nú 470, auk rúmlega 100 maka. Félagið hefur aðgang að skrifstofuaðstöðu sem Snorrasjóður leigir í húsnæði Norræna félagsins, Óðinsgötu 7, sem er jafnframt heimilisfang ÞFÍ.

Þjóðræknisfélag Íslendinga var stofnað 1. desember árið 1939 og fagnaði því 80 ára afmæli á árinu 2019. Í tilefni af því var afmælishátíð haldin á Þjóðræknisþinginu þann 25. ágúst á Hótel Reykjavík Natura að viðstöddu fjölmenni. Boðið var upp á ljúffengar veitingar af kaffihlaðborði og dagskráin var bæði skemmtileg, fræðandi og fjölbreytt. Formaður ÞFÍ setti þingið og síðan ávarpaði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra þinggesti. Lilja var nýkomin að vestan þar sem hún tók þátt í hátíðarhöldunum í Mountain, Norður-Dakóta og Íslendingadeginum í Gimli, Manitóba. Ávörp fluttu einnig Anne-Tamara Lorre, sendiherra Kanada á Íslandi, Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna, Beverly Arason-Gaudet, formaður Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi og Sunna Pam Furstenau, formaður Þjóðræknisfélags Íslendinga í Bandaríkjunum. Hjálmar W. Hannesson fyrrverandi sendiherra og fyrrverandi formaður ÞFÍ flutti fróðlegt og skemmtilegt erindi sem bar heitið Úr 80 ára sögu Þjóðræknisfélags Íslendinga. Svavar Knútur Kristinsson trúbador söng nokkur hugljúf lög og var honum vel fagnað. Að loknu kaffihléi flutti Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum erindið Draumalandið, en hún tók þátt í þingi INLNA sem haldið var í Winnipeg í apríl 2019 og var jafnframt í fylgdarliði mennta- og menningarmálaráðherra á ferðalagi hennar um slóðir afkomenda Íslendinga í Vesturheimi í ágúst það sama ár. Hugi Hreiðarsson sagði frá Ráðgátuherbergi Sir William Stephenson sem mikil leynd hefur hvílt yfir en til stendur að opna fljótlega. Loks sögðu ungir íslenskir þátttakendur í Snorri West verkefninu frá ferð sinni á Íslendingaslóðir í Norður-Ameríku.

Fréttabréf

Frá síðasta aðalfundi hafa tvö fréttabréf ÞFÍ komið út og má nálgast þau á vef ÞFÍ, www.inl.is.

Fræðslufundir

Fimmtudaginn 9. maí 2019 efndi ÞFÍ til fræðslufundar í Veröld – húsi Vigdísar. Dagskráin hófst með tveimur erindum sem gáfu skemmtilega og áhugaverða innsýn í notkun vesturíslenskra bókmennta á tveimur mismunandi skólastigum. Guðrún Björk Guðsteinsdóttir prófessor við enskudeild HÍ fjallaði um kennslu sína á íslensk-kanadískum bókmenntaverkum við Háskóla Íslands og Háskólann í Victoria í Kanada. Ásta Laufey Aðalsteinsdóttir og Sólrún Inga Ólafsdóttir framhaldsskólakennarar í Borgarholtsskóla sögðu síðan frá reynslu sinni af því að nota vesturíslenskar bókmenntir í enskukennslu við skólann. Fundinum lauk með því að Svavar Gestsson og Guðrún Ágústsdóttir sögðu á mjög skemmtilegan og sjónrænan hátt frá diplómatíska landnáminu í Winnipeg og landafundaafmælinu árið 2000. Af máli þeirra mátti ráða að þar var unnið geysilega mikið og merkilegt starf. 

ÞFÍ efndi einnig til fræðslufundar 21. nóvember 2019 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Böðvar Guðmundsson rithöfundur flutti erindið Híbýli vindanna & Lífsins tré – Tilurð tveggja sagna fyrir fullu húsi. Á annað hundrað manns sótti fundinn. Svavar Gestsson kynnti Böðvar til leiks og fjallaði um leið á einstaklega skemmtilegan hátt um mikilvægi starfsemi ÞFÍ, Snorrasjóðs, Ræðisskrifstofunnar í Winnipeg, Íslenskudeildarinnar við Manitóbaháskóla og Heiðursráðs ÞFÍ og fléttaði saman við skrif Böðvars.

Aðrir viðburðir                                                                                                                                                                             

ÞFÍ vakti á Facebook-síðum og vef félagsins athygli á eftirtöldum viðburðum sem voru ekki haldnir á þess vegum, en tengjast á einn eða annan hátt Vesturheimi og afkomendum íslenskra innflytjenda þar.

 

Heiðursráð ÞFÍ

Samkvæmt starfsreglum Heiðursráðs Þjóðræknisfélags Íslendinga er tilgangur þess
að efla tengsl Íslendinga við afkomendur Íslendinga í Vesturheimi og treysta fjárhagsstöðu félagsins. Heiðursráðið hefur starfað frá árinu 2013 og kemur saman árlega. Formaður þess er Halldór Árnason, en auk hans sitja í ráðinu annars vegar einstaklingar sem unnið hafa frábært starf fyrir ÞFÍ og hins vegar formenn eða fulltrúar félagasamtaka, stofnana og fyrirtækja sem styrkja Þjóðræknisfélagið og starfsemi þess á einn eða annan hátt. Helstu verkefni ráðsins á árinu hafa verið að hvetja til þess að stutt verði við starfsemi Íslenskudeildar Manitóbaháskóla. Þá er það helst að frétta af verkefninu Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi, sem heiðursráðið hafði forgöngu um í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar, að fjármagn vantar til að gera gögnin sem safnast hafa á vegum verkefnisins aðgengileg almenningi.

Samskipti og samstarf við afkomendur Íslendinga í Vesturheimi
Ársþing og aldarafmæli Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi (INLNA) var haldið í Winnipeg í Manitóba í Kanada dagana 16.-19. maí 2019. Á vegum ÞFÍ sóttu viðburðinn 36 gestir frá Íslandi og þar á meðal formaðurinn sem í ávarpi sínu bar INLNA góðar kveðjur frá systurfélagi þess á Íslandi. Formaðurinntók einnig þátt í hátíðarhöldum afkomenda Íslendinga í Mountain Norður-Dakóta í Bandaríkjunum og Gimli í Manitóba í Kanada dagana 3.-5. ágúst 2019. Þó nokkur samskipti eru á milli Þjóðræknisfélagsins og INLNA, INLUS, Icelandic Roots, Lögbergs-Heimskringlu og þeirra sem eru í forsvari fyrir hátíðarhöldum afkomenda Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum. Einnig má nefna International Visits Program (IVP) verkefnið sem er hugsað þannig að annað árið fer íslenskur fulltrúi til Vesturheims og hitt árið kemur afkomandi Íslendinga í Vesturheimi til Íslands. Þannig hafa rithöfundar og aðrir listamenn, margs konar fyrirlesarar og fleiri ferðast um og sagt frá sérsviðum sínum eða sýnt verk hér á landi og fyrir vestan. Á vegum IVP í ágúst 2019 sýndu myndlistarkonurnar JoAnne Gullachsen og Mabel Sigurdson Tinguely sem báðar eru fæddar og uppaldar í Gimli, Manitóba og Inga Torfadóttir sem er fædd á Íslandi, verk sín í Borgarbókasafninu í Spönginni.

Vegna COVID-19 fóru samskipti ÞFÍ við afkomendur Íslendinga í Vesturheimi aðeins fram í gegnum netið árið 2020.

Snorraverkefnin 
Þjóðræknisfélagið ásamt Norræna félaginu stofnuðu sjálfseignarstofnunina Snorrasjóð sem hefur verið starfrækt frá árinu 1999. Undir Snorrasjóð falla verkefnin Snorri, Snorri Plus, Snorri West og Snorri Alumni Internship. Snorri Deaf verkefnið hefur haft tengingu við Snorrasjóð en fellur ekki á sambærilegan hátt undir hann og hin verkefnin. Stjórn stofnunarinnar er skipuð fimm fulltrúum, einn er tilnefndur af stjórn Norræna félagsins (NF), einn skipaður af NF og ÞFÍ sameiginlega, einn frá Icelandic National League (INL) í Norður-Ameríku og einn fulltrúi nemenda/þátttakenda. Að auki tilnefna stofnendur hvor um sig einn varamann og kýs stjórnin formann og varaformann og annast ráðningu starfsmanns sjóðsins sem jafnframt er ritari hennar. Stjórnarmenn fá hvorki greidd laun né þóknun fyrir venjuleg stjórnarstörf. Hulda Karen Daníelsdóttir hefur tekið við af Halldóri Árnasyni sem formaður sjóðsins, Soffía Óskarsdóttir er varaformaður en aðrir í stjórn eru Kristján Sveinsson, Ástrós Signýjardóttir, Ásdís Eva Hannesdóttir, Julie Sanders og Jody Arman-Jones sem tók nýlega við af David Gíslasyni sem fulltrú INLNA í stjórninni. Pála Hallgrímsdóttir er nýr verkefnastjóri Snorraverkefnanna.

Þátttakendur frá árinu 1999 eru 628 talsins, þar af hafa 303 ungmenni frá N-Ameríku tekið þátt í Snorraverkefninu, 90 íslensk ungmenni tekið þátt í Snorri West verkefninu og 217 eldri Vestur-Íslendingar tekið þátt í Snorri Plus. Í ár tóku samtals 28 þátt í verkefnunum. Í sumar var haldin hátíð á Hofsósi til að minnast þess að 20 ár voru liðin frá upphafi Snorraverkefnisins. Vandað afmælisrit kom einnig út af því tilefni sem Julie Summers ritstýrði. Almar Grímsson, fv. formaður ÞFÍ og Snorrasjóðs, gaf á árinu út ritið My Snorri Story þar sem hann segir frá aðdraganda að stofnun Snorraverkefnanna og starfsemi þeirra fyrstu árin.

Í  júní 2019 komu 14 Snorrar, á aldrinum 18-28 ára til Íslands, 10 frá Kanada og 4 frá Bandaríkjunum og dvöldu í sex vikur á landinu. Meðan á dvöl þeirra stóð fylgdu þau hefðbundinni dagskrá, þ.e. þau fengu íslenskukennslu og menningarfræðslu, nutu samveru, dvöldu hjá ættingjum í þrjár vikur og ferðuðust um landið svo fátt eitt sé nefnt. Snorrarnir snéru til síns heima í lok júlí. Snorri West verkefnið fór fram um svipað leyti, en fjórar stúlkur fóru utan á slóðir Íslendinga í Vesturheimi. Þær heimsóttu Seattle, Point Roberts, Blaine og Washington í Bandaríkjunum og Victoria, Nanaimo, Vancouver Island, og Vancouver í British Columbia fylki í Kanada.

Í ágúst 2019 komu sex þátttakendur Snorri Plus hingað til lands. Þau dvöldu á Íslandi í tvær vikur og fengu m.a. fræðslu um íslenska tungu og menningararfinn, fóru í vikuferð um landið og tóku þátt í Þjóðræknisþinginu.

Vesturfarasetrið á Hofsósi, Sendiráð Kanada og Bandaríkjanna, Þjóðræknisfélag Íslendinga og Icelandair stóðu í sjötta sinn fyrir verkefninu Snorri Alumni Internship sumarið 2019. Tveimur fyrrverandi Snorrum, einum frá Bandaríkjunum og öðrum frá Kanada, gafst kostur á að dvelja á Vesturfarasetrinu á Hofsósi í átta vikur og í Reykjavík í tvær vikur. Lærlingarnir komu til landsins um miðjan júní og dvöldu hér á landi til loka ágúst.

Tveir Snorrar frá Kanada, heyrnarlausir þátttakendur í Snorri Deaf verkefninu og túlkur þeirra, komu til landsins í ágúst 2019 og dvöldu hér á landi í rúma viku. Allur undirbúningur heimsókna og fyrirgreiðsla var unnin í sjálfboðavinnu, en verkefnið hefur notið styrkja frá Icelandic Roots ættfræðivefnum, Icelandair o.fl. aðilum.

Mikilvægi Snorraverkefnanna dylst engum því það eru ungu Snorrarnir sem taka munu við keflinu af okkur sem eldri erum og tryggja þannig áframhaldandi samskipti og samvinnu afkomenda Íslendinga beggja vegna hafsins.

Vegna COVID-19 var öllum Snorraverkefnunum aflýst í ár og þeim frestað til ársins 2021.

 

Þakkir og kveðjur

Þjóðræknisfélagið færir utanríkisráðuneytinu og Icelandair kærar þakkir fyrir mikilvægan fjárhagslegan stuðning um árabil sem hefur gert félaginu kleift að sinna sínu umfangsmikla starfi. Þá þakkar félagið sendiráðum Kanada og Bandaríkjanna á Íslandi og starfsfólki þeirra fyrir mikilsverðan stuðning við starfsemi félagsins.

Þjóðræknisfélagið hefur átt afar gott samstarf við Vesturfarasetrið á Hofsósi á undanförnum árum. Frá upphafi Snorraverkefnanna hafa þátttakendur þeirra haft viðdvöl og gist á Hofsósi. Valgeiri Þorvaldssyni, forstöðumanni setursins, er hér þakkað fyrir gott og ánægjulegt samstarf.

Fjölmargir ungir þátttakendur í Snorraverkefninu hafa notið fjárhagsstuðnings frá Icelandic Roots og vill ÞFÍ koma á framfæri sérstökum þökkum fyrir þennan mikilvæga stuðning.

Félagið þakkar samstarfsaðilum í Vesturheimi fyrir gjöfult og gott samstarf jafnt í ár sem á fyrri árum. ÞFÍ hefur einnig átt gott samstarf við aðalræðismannsskrifstofuna í Winnipeg og lítur björtum augum til samstarfs við Guðmund Árna Stefánsson sem nýlega tók við stöðu aðalræðismanns þar í borg.

Lokaorð 
Ég vil þakka samstarfsfólki mínu í stjórn ÞFÍ fyrir ánægjulega samvinnu og einnig fyrrverandi formönnum ÞFÍ þeim Hjálmari W. Hannessyni og Halldóri Árnasyni fyrir ómetanlegan stuðning. Saman höfum við unnið að því að efla samstarf og samskipti Íslendinga við afkomendur og samtök Íslendinga í Vesturheimi á sem flestum sviðum. Einnig vinnum við stöðugt að því að auka skilning almennings, stofnana og fyrirtækja á Íslandi á mikilvægi náins sambands við afkomendur Íslendinga í Vesturheimi og fá fleiri aðila til liðs við félagið, ekki síst ungt fólk.

Félagsmönnum öllum þakkar stjórnin stuðning og tryggð við félagið.

F.h. stjórnar ÞFÍ,  Hulda Karen Daníelsdóttir, formaður

 

Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2018 – 2019.

Aðalfundur Þjóðræknisfélags Íslendinga (ÞFÍ) var haldinn í utanríkisráðuneytinu, 12. apríl 2018. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum, þar sem gefin var skýrsla stjórnar um starfsemina 2017-2018 og ný stjórn kjörin, voru flutt tvö fróðleg og skemmtileg erindi.

Kjörin til tveggja ára árinu áður voru Hjálmar W. Hannesson formaður félagsins, Hulda Karen Daníelsdóttir varaformaður, Gísli Sigurðsson ritari og Soffía Óskarsdóttir meðstjórnandi. Þau sátu því áfram í stjórninni. Þorvarður Guðlaugsson, gjaldkeri, Erin Jones og Sigurður Rúnar Jónmundsson voru kjörin aðalmenn til tveggja ára. Jón E. Gústafsson og Kristín M. Jóhannsdóttir voru áfram kjörin í varastjórn. Sandra Björg Ernudóttir var kjörin ný í varastjórn. Stjórnarmenn frá Norður Ameríku voru áfram Jóel Fridfinnsson frá Manitóba í Kanada og Sunna Pam Furstenau frá Norður Dakóta í Bandaríkjunum. Skoðunarmaður reikninga var kjörinn Sigurður Þórðarson.

Að loknu kaffihléi flutti Sunna Pam Furstenau, fráfarandi forseti Þjóðræknisfélags Íslendinga í Norður Ameríku (INL NA) erindið “Once Upon a Time” við mjög góðar undirtektir viðstaddra. Sunna er einstök og tilfiningarík ræðukona og mikill áhugamaður um viðhald sterkra tengsla yfir hafið. Henni voru þökkuð margskonar störf í þágu tengsla Vestur-Íslendinga og Íslendinga. Formaður afhenti henni skjal þar sem fram kom að stjórn ÞFÍ hefði ákveðið að skipa hana heiðursfélaga Þjóðræknisfélags Íslendinga. Hún situr því í heiðursráði ÞFÍ. Við erum afar ánægð með að fá að njóta starfskrafta hennar áfram.

Magnús Þór Þorbergsson flutti síðan stórskemmtilegt erindi um “Leiklistarstarfsemi Vestur-Íslendinga 1880-1950 og var afar athyglisvert að heyra hversu mikil og blómleg leiklistarstarfsemi var meðal íslensku innflytjendanna í Norður Ameríku.

Fjöldi félagsmanna er u.þ.b. 490, auk rúmlega 100 maka. ÞFÍ hefur haft skrifstofuaðstöðu  sem Snorrasjóður leigir að Óðinsgötu 7 í húsnæði Norræna félagsins.  Halldór Árnason, fyrrum formaður ÞFÍ, gegnir mikilvægum störfum fyrir ÞFÍ sem formaður stjórnar Snorrasjóðsins og nú einnig Heiðursráðs ÞFÍ. Ásta Sól Kristjánsdóttir var í fullu starfi sem verkefnastjóri Snorrasjóðs og sinnti samhliða nokkrum verkefnum fyrir ÞFÍ.

Að vanda var starfsemi ÞFÍ umfangsmikil og fjölbreytt eins og nánar verður greint frá hér á eftir. Stjórn ÞFÍ hélt a.m.k. einn stjórnarfund í mánuði.

Snorraverkefnin

Snorraverkefnin eru þýðingarmestu verkefnin sem Þjóðræknisfélagið kemur að. Þau hafa verið starfrækt frá árinu 1999 í samstarfi við Norræna félagið á Íslandi. Á þessu ári er haldið upp á 20 ára afmæli verkefnisins. Mikill undirbúningur og skipulag liggur að baki komu Snorranna, vestur íslenskra ungmenna, til landsins. Auk þess að skipuleggja menningardagskrá og ferðalag fyrir hópinn, þarf að finna þeim dvalarstaði í þrjár vikur hjá ættingjum.

Alls tóku 15 vestur-íslensk ungmenni þátt í Snorraverkefninu 2018. Þar af voru 10 frá Kanada en 5 frá Bandaríkjunum. Að venju dvöldu þátttakendurnir 6 vikur á Íslandi: Tvær vikur í Reykjavík, þrjár vikur í heimabyggð forfeðra- og mæðra og síðustu vikuna var farin sameiginleg ferð um íslenska merkisstaði. Undantekningarlaust upplifa þátttakendurnir dvölina hér sem ógleymanlegt ævintýr. Ungmennin kappkosta langflest í framhaldinu að halda sambandi við ættingja þar sem þau dvöldu og vini sem þau eignuðust hér á landi.

Fjögur íslensk ungmenni voru valin í Snorra West verkefnið sem stóð yfir í 4 vikur frá miðjum júní til miðs júlí. Ungmennin fóru til Washington DC, Ontario, Nova Scotia og L´Anse Aux Meadows á Nýfundnalandi. Félög Vestur-Íslendinga sáu um móttökur og skipulag.

Snorri Plús: Tekið var á móti hópi eldri Snorra frá Norður Ameríku í 17. sinn um miðjan ágúst 2018. Þátttakendurnir fimmtán voru á aldrinum 36 – 79 ára. Að vanda dvaldi hópurinn eina viku í Reykjavík og sótti fróðlega fyrirlestra. Líkt og áður, var móttaka fyrir ættingja þátttakenda á skrifstofu Norræna félagsins í upphafi heimsóknarinnar. Hópurinn tók þátt í Menningarnótt og Reykjarvíkurmaraþoni áður en haldið var í sameiginlega ferð um Ísland. Verkefnið hefur sannað gildi sitt við að efla samskiptin milli ættingja beggja vegna hafsins. Alls hafa yfir 200 manns tekið þátt í þessu tveggja vikna Snorra Plus verkefni.

Starfsnám fyrir Snorra á Vesturfarasetrinu. Vesturfarasetrið á Hofsósi, kanadíska sendiráðið, bandaríska sendiráðið, Þjóðræknisfélag Íslendinga og Icelandair stóðu í fimmta sinn fyrir verkefninu Snorri Alumni Internship sumarið 2018. Tveimur fyrrum Snorrum, einum frá Bandaríkjunum öðrum frá Kanada, gafst kostur á að dvelja á Vesturfarasetrinu á Hofsósi í átta vikur, auk viku í Reykjavík fyrir og eftir. Þau komu til landsins um miðjan júní og dvöldu hér á landi til loka ágúst. Þjóðræknisfélagið sá um að auglýsa verkefnið meðal fyrrum Snorra þátttakenda og sjá þátttakendum fyrir húsnæði og fæði þann tíma sem þeir dvöldu í Reykjavík í upphafi og lok verkefnisins.

Nýtt Snorra verkefni: Snorri Deaf. Tveir íslenskir heyrnarlausir þátttakendur fóru um miðjan september sl. til Minnesota, Norður Dakóta og Manitóba. Snorri Deaf verkefnið er tilraunaverkefni og gert er ráð fyrir samskonar heimsókn hernarlausra Vestur-Ísledinga til Íslands.

Formaður stjórnar Snorrasjóðs er Halldór Árnason, fyrrverandi formaður ÞFÍ, en aðrir fulltrúar ÞFÍ í stjórn sjóðsins eru Eydís Egilsdóttir og Ástrós Signýjardóttir. Ásta Sól Kristjánsdóttir hefur verið verkefnastjóri Snorrasjós frá upphafi, en hefur nú látið af störfum. Stjórn ÞFÍ þakkar verkefnisstjóra heilladrjúg störf á umliðnum árum við skipulag og framkvæmd Snorraverkefnanna og óskar henni alls hins besta.

Stjórn Snorrasjóðs, undir forystu Halldórs, hefur þegar tryggt að umsvif Snorraverkefnanna næsta árið verða með sama sniði og áður og nýtur í því sambandi óskoraðs trausts stjórnar ÞFÍ. Tuttugu vestur-íslensk ungmenni sóttu um þátttöku í Snorraverkefninu 2019 í sumar og hafa sautján þegar verið valin. Tíu íslensk ungmenni sóttu um þátttöku í Snorra-West verkefninu.

Þjóðræknisþing  

Glæsilegt Þjóðræknisþing var haldið á Hótel Natura 19. ágúst 2018 að viðstöddu fjölmenni. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá:  Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ávarpaði þingið, nýkomin að vestan eftir þátttöku í hátíðarhöldunum í Mountain, Norður Dakóta og Íslendingadeginuum í Gimli, Manitóba. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður sendi kveðjur, en ávörp fluttu sendiherra Kanada, varasendiherra Bandaríkjanna og Beverly Arason Gaudet, nýr forseti INL NA (Þjóðræknisfélag Íslendinga í N. Ameríku). Commander Douglas Hanson sagði frá “Discovering my Icelandic Story”. Þá sungu “Voces Thules” nokkur lög og var þeim vel fagnað. Að loknu kaffihléi flutti Eliza Reid, forsetafrú, bráðsnjallt og skemmtilegt erindi, “My Iceland Story.”  Jakob Þór Kristjánsson flutti mjög athyglisvert erindi: “Vestur-íslenskir piltar í víti  fyrri heimstyrjaldarinnar.“ Loks sögðu ungir íslenskir þátttakendur í Snorra West verkefninu frá ferð sinni á Íslendingaslóðir í N. Ameríku og Ásta Sól verkefnastjóri sýndi myndir. Á þinginu var Svavari Gestssyni, fyrrverandi ráðherra og sendiherra,  þökkuð margvísleg störf fyrir ÞFÍ og honum afhent heiðursskjal. Hann situr því áfram í Heiðursráði ÞFÍ þótt hann hafi látið af formennsku þess. Formennskunni hafði hann gegnt frá upphafi Heiðursráðsins.

Á Þjóðræknisþinginu 2019 verður verður 80 ára afmælis ÞFÍ sérstaklega minnst.

KÁINN

Þjóðræknisfélagið hefur styrkt Jón Hjaltason, sagnfræðing, til að klára að skrifa bók þá um ævi KÁINS sem hann hefur unnið að.

Önnur verkefni á starfsárinu  

Fréttabréf ÞFÍ kom út einu sinni á starfsárinu. Stjórn ÞFÍ tók þá ákvörðun fyrir rúmlega ári að gefa fréttabréfið aðeins út rafrænt, þ.e. hætta prentútgáfu. Nýi vefur ÞFÍ er www.inl.is og nýja netfangið er inl@inl.is.

Fræðslufundur að hausti. ÞFÍ efndi til fræðslufundar að hausti, 1. nóvember sl. Þar fluttu erindi Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður og Sandra Björg Ernudóttir, þjóðfræðingur. Erindi Margrétar nefndist “Menningararfur íslenskra landnema í Vesturheimi. Þjóðminjar, minningar og veganesti”. Erindi Söndru nefndist “Hvað er ég núna? Sjálfsmyndarsköpun ungra Vestur-Íslendinga á 21. öld.” Erindin voru bæði fróðleg og skemmtileg og spunnust fjörlegar umræður í kjölfar þeirra.

Fræðslufundur að vori.

Dagsetning fræðslufundar að voriliggur ekki fyrir, en ekki leikur vafi á að þá verður að vanda boðið upp á fróðleik og skemmtun er tengjast vestur-íslenskum málefnum.

Heiðursráð ÞFÍ

Samkvæmt starfsreglum Heiðursráðs Þjóðræknisfélags Íslendinga er tilgangur þess  “að efla tengsl Íslendinga við afkomendur Íslendinga í Vesturheimi og treysta fjárhagsstöðu félagsins.” Heiðursráðið hefur starfað frá árinu 2013 og kemur saman árlega. Formaður þess frá upphafi hefur verið Svavar Gestsson, eins og fyrr segir. Hann gaf ekki kost á sér til formennsku áfram. Á ársfundi ráðsins 3. október 2018 tók Halldór Árnason formlega við sem formaður í stað Svavars. Í ráðinu sitja “Einstaklingar sem unnið hafa frábært starf fyrir félagið og formenn eða fulltrúar félagasamtaka, stofnana og fyrirtækja sem styrkja Þjóðræknisfélagið og starfsemi þess sérstaklega.”

Á fundinum var m.a. fjallað um það sem efst er á baugi hjá Þjóðræknisfélagi Íslendinga og Þjóðræknisfélagi Íslendinga í Vesturheimi, Snorraverkefnin og framtíð þeirra, verkefnið. ”Í fótspor Árna Magnússonar” (skráning ísl. menningarminja í Kan. og BNA í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar) og Íslenskudeildina við Manitóbaháskóla. Fram kom að sameiginleg ráðstefna Háskóla Íslands og Manitóbaháskóla verður haldin hér í ág.

Samstarf við Vesturfarasetrið á Hofsósi.

Þjóðræknisfélagið hefur átt afar gott samstarf við Vesturfarasetrið á Hofsósi á undanförnum árum. Frá upphafi Snorraverkefnanna hafa þátttakendur verkefnanna haft viðdvöl og gist á Hofsósi. Valgeiri Þorvaldssyni, forstöðumanni setursins er hér enn og aftur þakkað fyrir afar gott og ánægjulegt samstarf. Á Hofsósi var  í júní haldin minningarhátíð um vestur-íslenska rithöfundinn og ljóðskáldið Bill Holm frá Minnesota, en hann dvaldi oft á Hofsósi og átti þar hús.

Samskipti við félög og samtök í Vesturheimi

Ársþing Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi (INL NA) var haldið í Edmonton í Albertafylki Kanada, 26.-28. apríl sl. Hjálmar W. Hannesson, Halldór Árnason og Ásta Sól Kristjánsdóttir sóttu þingið af hálfu ÞFÍ og Snorrasjóðs og fluttu öll ávörp. Beverly Arason-Gaudet var kjörin forseti samtakanna og tók hún við af Sunnu Pam Furstenau sem gegndi stöðunni af miklum metnaði og atorku í tvö ár. Sunna er vel þekkt á Íslandi og hefur flutt erindi á þjóðræknisþingum og víða um land um þá lífsfyllingu sem áhugi hennar á íslenskum rótum sínum hefur fært henni. Fyrir fáeinum árum festi hún ásamt Jeff manni sínum kaup á ættfræðigrunni Hálfdáns Helgasonar sem hægt er að nálgast undir síðunni www.icelandicroots.com . Mjög miklum upplýsingum hefur verið bætt við grunninn og heldur sú vinna áfram af miklum krafti. Icelandic Roots er sjálfseignastofnun og öll vinna á þess vegum er sjálfboðastarf. Það fé sem aflast með keyptum aðgangi að vefnum fer í að styrkja verkefni sem stuðla að auknum samskiptum Íslendinga og Vestur-Íslendinga. Forseti Íslands sæmdi Sunnu Riddarakrossi Fálkaorðunnar í fyrra fyrir frábær störf í þágu samskiptanna milli Vestur-Íslendinga og gamla landsins.

Fjölmargir ungir þátttakendur í Snorra verkefninu hafa notið fjárhagsstuðnings frá Icelandic Roots. ÞFÍ endurtekur þakkir til Icelandic Roots fyrir þennan mikilvæga stuðning.

Þjóðræknisfélag Íslendinga í Norður Ameríku stendur fyrir afmælisferð til Íslands 14. – 26. ágúst nk., “INL NA 100th Anniversary Tour to Iceland.”

Ekki er hægt að telja upp alla þá fjölmörgu Vestur Íslendinga sem stjórn ÞFÍ, öll eða að hluta, hefur samskipti við á hverju ári. Þau beinu og persónulegu samskipti eru dýrmætur þáttur í starfinu.

INL NA í eina öld.

Þjóðræknisfélag Íslendinga í Norður Ameríku (INL NA) verður eitt hundruð ára á þessu ári, eins og fram hefur komið. Þetta er einstakt og merkilegt afmæli. Það var stofnað í Winnipeg árið 1919 og 100. þing INL NA verður einmitt haldið þar í borg í tilefni aldarafmælisins, 16. -19. maí. Er ekki að efa að þá verður mikið um dýrðir. Hópur á vegum ÞFÍ sækir afmælisþingið heim og hafa 36 manns verið bókaðir. Til stóð að hópur kennara færi með í þessa ferð en það mun ekki ganga eftir. Fyrirtækið KVAN annast alla fyrirgreiðslu fyrir þessa ferð, en fararstjóri verður Almar Grímsson.

International Visits Program (IVP) 

IVP verkefnið er þannig hugsað að annað árið fer einhver héðan frá Íslandi til Vesturheims og hitt árið kemur Vestur Íslendingur hingað. Þannig hafa rithöfundar og aðrir listamenn, fyrirlesarar margskonar o.fl. ferðast um og sagt frá sínu sérsviði eða sýnt verk hér á landi og fyrir vestan.

Þakkir og kveðjur .

Þjóðræknisfélagið færir utanríkisráðuneytinu og Icelandair innilegt þakklæti fyrir mikilvægan fjárhagslegan stuðning um árabil sem hefur gert félaginu kleift að sinna sínu umfangsmikla starfi. Þá þakkar félagið sendiráði Kanada á Íslandi og sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi og starfsfólki þeirra fyrir mikilsverðan stuðning við starfsemi félagsins

Félagsmönnum öllum þakkar stjórnin stuðning og tryggð við félagið.

F.h. stjórnar ÞFÍ,  Hjálmar W. Hannesson, formaður

Lokaorð

Þetta ár hefur verið lærdómsríkt og gefandi. Ég vil þakka samstarfsfólki mínu í stjórn ÞFÍ fyrir ánægjulega samvinnu. Saman höfum við reynt eftir bestu getu að efla samstarf og samskipti Íslendinga við afkomendur og samtök Íslendinga í Vesturheimi á sem flestum sviðum. Meðal grunnverkefna félagsins er að auka skilning almennings, stofnana og fyrirtækja á Íslandi á mikilvægi náins sambands við Íslendingabyggðir vestanhafs og fá fleiri aðila til liðs við félagið, ekki síst ungt fólk.

Þar sem ég hef nú lokið tveggja ára kjörtímabili mínu í formennsku fyrir ÞFÍ og af persónulegum ástæðum ætla ekki að gefa kost á mér til áframhaldandi formannsstarfa, vil ég að lokum segja að þessi tvö ár hafa verið skemmtileg og áhugaverð. Ég sit áfram í stjórn ÞFÍ í eitt ár sem fyrrverandi formaður. Mikilvæg markmið og starfsemi ÞFÍ verða mér ávallt kær og vonast ég til að geta orðið að einhverju liði áfram. Nýjum formanni og stjórn ÞFÍ óska ég allra heilla.

Hjálmar W. Hannesson.


Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2017-2018.

Á aðalfundi Þjóðræknisfélags Íslendinga (ÞFÍ) sem haldinn var í Borgartúni, 27. apríl 2017 var Hjálmar W. Hannesson kjörinn formaður félagsins og með honum í stjórn þau Hulda Karen Daníelsdóttir, Gísli Sigurðsson, Þorvarður Guðlaugsson, Egill Helgason, Soffía Óskarsdóttir og Erin Jones. Varamenn í stjórn voru kosin Sigurður Rúnar Jónmundsson, Jón E. Gústafsson og Kristín M. Jóhannsdóttir. Stjórnarmenn frá Norður Ameríku eru Jóel Fridfinnsson frá Manitóba í Kanada og Sunna Pam Furstenau frá Norður Dakóta í Bandaríkjunum. Fráfarandi formanni, Halldóri Árnasyni, var þakkað fyrir áralöng forystustörf fyrir ÞFÍ. Fyrrum formaður er sjálfkrafa í stjórninni fyrsta starfsárið eftir að hann hættir formennskunni. Halldór heldur einnig áfram mikilvægum öðrum störfum fyrir ÞFÍ sem formaður stjórnar Snorrasjóðsins. Að loknum aðalfundarstörfum flutti Baldur Hafstað, prófessor emeritus við HÍ skemmtilegt og fróðlegt erindi um vestur-íslenska rithöfundinn Jóhann Magnús Bjarnason.
Fjöldi félagsmanna er u.þ.b. 500, auk rúmlega 100 maka. ÞFÍ hefur skrifstofuaðstöðu að Óðinsgötu 7 í húsnæði Norræna félagsins. Ásta Sól
Kristjánsdóttir hefur annast framkvæmdastjórn fyrir félagið samhliða því að sinna verkefnastjórn fyrir Snorraverkefnin. Að vanda var starfsemin umfangsmikil og fjölbreytt eins og nánar verður greint frá hér á eftir. Stjórn ÞFÍ hefur haldið einn stjórnarfund í mánuði frá því að hún tók við störfum.

Snorraverkefnin
Snorraverkefnin eru þýðingarmestu verkefnin sem Þjóðræknisfélagið kemur að. Þau hafa verið starfrækt frá árinu 1999 í góðu samstarfi við Norræna félagið á Íslandi. Á næsta ári verður haldið upp á 20 ára afmæli verkefnisins. Mikill undirbúningur og skipulag liggur að baki komu Snorrana, vestur íslenskra ungmenna til landsins. Auk þess að skipuleggja menningardagskrá og ferðalag fyrir hópinn, þarf að finna þeim dvalarstað í þrjár vikur hjá ættingjum.
Alls tóku 14 ungmenni þátt í Snorraverkefninu 2017. Þar af voru 13 frá Kanada en einungis 1 frá Bandaríkjunum. Stúlkurnar voru 12 en drengirnir 2. Hlutfall kynja og milli landa verður jafnara í ár þegar 17 ungmenni af íslenskum ættum koma til landsins. Að venju dvöldu þátttakendurnir 6 vikur á Íslandi: Tvær vikur í Reykjavík, þrjár vikur hjá ættingjum og síðustu vikuna var farin sameiginleg ferð um Borgarfjörð, Snæfellsnes, Húnavatnssýslur og Skagafjörð með viðkomu á Hofsósi og í Drangey. Lokahóf var haldið á Northern Light Inn við Bláa lónið. Undantekningarlaust upplifa þátttakendurnir dvölina hér sem ógleymanlegt ævintýr. Þau kappkosta að halda sambandi við ættingja þar sem þau dvöldu og vini sem þau eignuðust hér á landi.
Fimm íslensk ungmenni, þrjár stúlkur og tveir drengir, voru valin í Snorra West verkefnið sem stóð yfir í 4 vikur frá miðjum júní til miðs júlí. Ungmennin fóru til Edmonton, Markerville og Calgary í Alberta fylki í Kanada, auk þess sem þau dvöldu nokkra daga í Saskatchewan og viku í Utah en það var í fyrsta sinn sem Íslendingafélagið í Utah tekur á móti Snorra West þátttakendum.
Tekið var á móti 15 manna hópi eldri Snorra frá Norður Ameríku í 16. sinn um miðjan ágúst 2017. Að vanda dvelur hópurinn eina viku í Reykjavík og sækir fróðlega fyrirlestra sem fara fram í Hannesarholti. Líkt og áður var móttaka fyrir ættingja þátttakenda á skrifstofu Norræna félagsins í upphafi heimsóknarinnar. Hópurinn tók þátt í Menningarnótt og Reykjarvíkurmaraþoni áður en haldið var í sameiginlega ferð um Ísland. Flogið var til Egilsstaða og þaðan farið til Vopnafjarðar, Mývatns, Akureyrar, Hofsós og um Borgarfjörð. Lokahóf ferðarinnar var haldið á Northern Light Inn við Bláa lónið. Verkefnið hefur sannað gildi sitt við að efla samskiptin milli ættingja beggja vegna hafs. Alls hafa um 200 manns tekið þátt í þessu tveggja vikna Snorra Plus verkefni.
Formaður stjórnar Snorrasjóðs er Halldór Árnason en aðrir fulltrúar ÞFÍ í stjórn sjóðsins eru Eydís Egilsdóttir og Ástrós Signýjardóttir. Ásta Sól Kristjánsdóttir hefur verið verkefnastjóri frá árinu 2000.
Starfsnám fyrir Snorra á Vesturfarasetrinu Vesturfarasetrið á Hofsósi í samstarfi við kanadíska sendiráðið, bandaríska sendiráðið, Þjóðræknisfélag Íslendinga og Icelandair stóðu í fjórða sinn fyrir verkefninu Snorri Alumni Internship sumarið 2017. Tveimur Snorrum, þeim Donnu Toro frá Bandaríkjunum og Matthew Magnus McCurdy frá Kanada gafst kostur á að dvelja á Vesturfarasetrinu á Hofsósi í tíu vikur auk viku í Reykjavík fyrir og eftir. Þau komu til landsins um miðjan júní og dvöldu hér á landi til loka ágúst. Þjóðræknisfélagið sá um að auglýsa verkefnið meðal fyrrum Snorra þátttakenda og sjá þátttakendum fyrir húsnæði og fæði þann tíma sem þeir dvöldu í Reykjavík í upphafi og lok verkefnisins. Verkefnið verður með svipuðu sniði nú í sumar.

Þjóðræknisþing
Þjóðræknisþing var haldið á Hótel Natura 20. ágúst 2017 að viðstöddu fjölmenni. Þátttakendum var boðið upp á fjölbreytta dagskrá. Forseti Íslands ávarpaði þingið. Það gerðu einnig utanríkisráðherra, sendiherrar Kanada og BNA og Sunna Pam Furstenau, forseti INL NA (þjóðræknisfélag Íslendinga í N. Ameríku). Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ og Hulda Karen, varaformaður ÞFÍ fluttu erindi. Þá fór Davíð Gíslason, bóndi í Manitóba með frumort ljóð og Baggalútur flutti nokkur lög. Loks sögðu ungir íslenskir þátttakendur í Snorra West verkefninu frá ferð sinni á Íslendingaslóðirí Norður Ameríku. Þjóðræknisþingið 2018 verður haldið á sama stað sunnudag 19. ágúst nk.

KÁINN á Akureyri
Þjóðræknisfélagið undir stjórn félagsmanna þess á Akureyri unnu að undirbúningi að málþingi um vísnaskáldið Kristján Níels Jónsson (KÁINN) sem var fæddur á Akureyri 1860, en fluttist til Vesturheims 18 ára og bjó í Norður Dakóta. Málþingið, sem form. ÞFÍ setti, var haldið laugardaginn 26. ágúst sl. í tengslum við Akureyrarvöku og var fjölsótt, skemmtilegt og fróðlegt. Icelandic Roots og samtök V. Íslendinga í norðaustur Norður Dakóta gáfu brjóstmynd af KÁINN í minnisvarða um hann á Akureyri. Í hópnum voru Hólmkell Hreinsson, amtsbókavörður, Kristín M. Jóhannsdóttir stjórnarmaður í ÞFÍ, Kristinn Már Torfason og Jón Hjaltason sagnfræðingur. Jón er nú að skrifa bók um ævi KÁINS og styrkir ÞFÍ það verkefni.

Önnur verkefni á starfsárinu
Fréttabréf ÞFÍ kom út tvisvar á starfsárinu og hafa formaður og Ásta Sól Kristjánsdóttir annast umsjón með útgáfu þess. Stjórn ÞFÍ tók þá ákvörðun að gefa fréttabréfið aðeins út rafrænt, þ.e. hætta prentútgáfu.
ÞFÍ efndi til fræðslufundar 14. nóvember sl. Gísli Sigurðsson hélt erindi um Mál og menningu í frásögnum Vesturíslendinga og Jón E. Gústafsson sýndi
mynd sína Olavia & Fjola – The Johnson Twins from Lonely Lake.
Þjóðræknisfélagið efndi aftur til fræðslufundar 22. febrúar sl. Úlfar Bragason, rannsóknarprófessor hjá Árnastofnun fjallaði um bók sína Frelsi, menning, framför: Um bréf og greinar Jóns Halldórssonar. Jón flutti til BNA 1872 og bjó lengstum í Nebraska. Þá flutti Gunnlaug Birta Þorgrímsdóttir erindi um lokaritgerð sína til BA prófs um Forsetninganotkun vestur-íslenskra erfðarmálshafa, afbrigðileg eða eðlileg? Fræðslufundir ÞFÍ eru vel sóttir og fastir liðir í starfseminni á hverju ári.

Heiðursráð ÞFÍ
Heiðursráðið hefur starfað frá árinu 2013 og kemur saman árlega. Formaður þess er Svavar Gestsson. Á fundi ráðsins 26. október 2017 var m.a. fjallað um skráningu íslenskra ættartengsla á vegum þriggja fyrirtækja. Sunna Pam Furstenau sagði frá Icelandic Roots vefnum, Valgeir Þorvaldsson frá Vesturfarasetrinu á Hofsósi sagði m.a. frá því að gerður hefði verið samningur við Icelandic Roots til að samþætta ættfræðiþjónustu beggja aðila og koma þannig í veg fyrir tvíverknað. Svava G. Sigurðardóttir fjallaði um islendingabok.is sem rekin er og kostuð af Íslenskri erfðagreiningu. Rætt var um árangur af verkefninu Í fótspor Árna Magnússonar í Vesturheimi sem gengur út á það að kanna og skrá íslenskar menningarminjar í Kanada og Bandaríkjunum í samstarfi við stofnun Árna Magnússonar. Einnig var rætt um samstarf Háskóla Íslands og Manitobaháskóla og fjallað um ísl. muni sem fundist hafa í Vesturheimi.

Samstarf við Vesturfarasetrið á Hofsósi
Þjóðræknisfélagið hefur átt afar gott samstarf við Vesturfarasetrið á Hofsósi á undanförnum árum. Frá upphafi Snorraverkefnanna hafa þátttakendur verkefnanna haft viðdvöl og gist á Hofsósi. Valgeiri Þorvaldssyni forstöðumanni setursins er þakkað fyrir afar gott og ánægjulegt samstarf. Minningarhátíð um vestur íslenska skáldið og rithöfundinn Bill Holm frá Minneota í Minnesota verður haldin að Hofsósi 23. júní nk. Bill, ógleymanlegur öllum sem honum kynntust, dvaldi löngum á Hofsósi.

Samskipti við félög og samtök í Vesturheimi
Ársþing Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi (INL NA) var haldið í Grand Forks í Norður Dakóta í maíbyrjun 2017. Hjálmar W. Hannesson, Halldór Árnason og Ásta Sól Kristjánsdóttir sóttu þingið af hálfu ÞFÍ og Snorrasjóðs. Þjóðræknisfélagið efndi til hópferðar á þingið undir fararstjórn Almars Grímssonar. Í ferðinni var m.a. farið til Minneota í Minnesota. Meðal dagskráratriða á þinginu var ferð um byggðir landnemanna í Norðausturhluta N. Dakóta, m.a. til Mountain, að gröf KÁINS og minnismerkis um Klettafjallaskáldið Stephans G. sem bjó um hríð í Gardar.
Næsta ársþing INL NA verður haldið seinna í þessum mánuði í Edmonton í Albertafylki í Kanada. Þar verður Bev Arason-Gaudet kjörin forseti samtakanna og tekur hún við af Sunnu Pam Furstenau sem gegnt hefur stöðunni af miklum metnaði og atorku í tvö ár. Sunna er vel þekkt á Íslandi og hefur flutt erindi á þjóðræknis-þingum og víða um land um þá lífsfyllingu sem áhugi hennar á íslenskum rótum sínum hefur fært henni. Fyrir fáeinum árum festi hún ásamt Jeff manni sínum kaup á ættfræðigrunni Hálfdáns Helgasonar sem hægt er að nálgast undir
síðunni www.icelandicroots.com . Icelandic Roots er sjálfseignastofnun og öll vinna á þess vegum er sjálfboðastarf. Það fé sem aflast með keyptum aðgangi að vefnum fer í að styrkja verkefni sem stuðla að auknum samskiptum Íslendinga og Vestur-Íslendinga. Fjölmargir ungir þátttakendur í Snorra verkefninu hafa notið fjárhagsstuðnings frá Icelandic Roots. ÞFÍ færir Icelandic Roots þakkir fyrir þennan mikilvæga stuðning.
Það var stjórnarmeðlimum ÞFÍ sérstakt ánægjuefni að vera viðstaddir að Bessastöðum er forseti Íslands sæmdi Sunnu Riddarakrossi Fálkaorðunnar hinn 30. ágúst sl. fyrir ómetanlegt starf hennar til styrkingar á samskiptum Vestur-Íslendinga við gamla landið.
Ekki er hægt að telja upp alla þá Vestur Íslendinga sem stjórn ÞFÍ, öll eða að hluta, hefur samskipti við á hverju ári. Þau beinu og persónulegu samskipti eru dýrmætur þáttur í starfinu.
John H. Johnson frá Gardar í Norður Dakóta hefur tekið á móti fjölda Íslendinga við minnismerkið um frænda sinn, Klettafjallaskáldið Stephan G. sem bjó í Gardar um hríð. John heimsótti gamla landið nýlega með dóttur, tengdasyni og tveimur afabörnum og ferðaðist norður, átti fund með forseta Íslands að Bessastöðum og sótti móttöku ÞFÍ með fjölskyldu sinni 5. apríl sl. Þar urðu fagnaðarfundir.

INL NA í eina öld.
Þjóðræknisfélag Íslendinga í Norður Ameríku (INL NA) verður eitt hundruð ára á næsta ári. Það var stofnað í Winnipeg árið 1919 og þing INL NA verður einmitt haldið þar í borg í tilefni aldarafmælisins. Er ekki að efa að þá verður mikið um dýrðir.

International Visit Program (IVP)
Almar Grímsson, fyrrverandi formaður ÞFÍ ferðaðist 29. september – 15. október sl. á vegum IVP í boði INL NA víða um byggðir Vestur Íslendinga, ekki síst til fámennari byggðarlaga sem stundum vilja verða út undan. IVP verkefnið er þannig hugsað að annað árið fer einhver héðan frá Íslandi til Vesturheims og hitt árið kemur Vestur Íslendingur hingað. Þannig hafa rithöfundar og aðrir listamenn, fyrirlesarar margskonar o.fl. ferðast um og sagt frá sínu sérsviði eða sýnt verk hér á landi og fyrir vestan.

Þakkir og kveðjur
Þjóðræknisfélagið færir utanríkisráðuneytinu og Icelandair innilegt þakklæti fyrir mikilvægan fjárhagslegan stuðning um árabil sem hefur gert félaginu kleift að sinna sínu umfangsmikla starfi. Þá þakkar félagið sendiráði Kanada á Íslandi og sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi og starfsfólki þeirra fyrir mikilsverðan stuðning við starfsemi félagsins.

Lokaorð
Þetta ár hefur verið lærdómsríkt og gefandi. Ég vil þakka samstarfsfólki mínu í stjórn ÞFÍ fyrir ánægjulega samvinnu. Saman höfum við reynt eftir bestu getu að efla samstarf og samskipti Íslendinga við afkomendur og samtök Íslendinga í Vesturheimi á sem flestum sviðum. Meðal grunnverkefna félagsins er að auka skilning almennings, stofnana og fyrirtækja á Íslandi á mikilvægi náins sambands við Íslendingabyggðir vestanhafs og fá fleiri aðila til liðs við félagið, ekki síst ungt fólk.
Félagsmönnum öllum þakka ég stuðning og tryggð við félagið.

F.h. stjórnar ÞFÍ,
Hjálmar W. Hannesson, formaður.


Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2013–2014

Á aðalfundi Þjóðræknisfélags Íslendinga (ÞFÍ) sem haldinn var í Þjóðmenningarhúsinu 17. apríl 2013 voru gerðar nokkrar breytingar á lögum félagsins, m.a. nýmæli um skipan heiðursráðs ÞFÍ sem ætlað er að efla starfsemi í þágu tengsla Íslendinga við Vestur-Íslendinga og treysta fjárhagsstöðu félagsins. Á aðalfundinum var Halldór Árnason kjörinn formaður félagsins og með honum í stjórn þau Elín Hirst, Eydís Egilsdóttir, Hulda Karen Daníelsdóttir, Rögnvaldur Guðmundsson, Svavar Gestsson og Þorvarður Guðlaugsson. Varamenn í stjórn voru kosin Jón Trausti Jónsson, Unnur Ýr Kristinsdóttir og Sigrún Björk Jakobsdóttir. Stjórnarmenn frá Norður Ameríku eru Eric Stefanson Kanada og Sunna Pam Furstenau Bandaríkjunum. Að fundi loknum hélt Sigursteinn Másson erindi um heimildarmynd sem hann vinnur að um afdrif íslensku Brasilíufaranna.
Fjöldi félagsmanna er nú 460 auk 100 maka. Hefur félagsmönnum fjölgað um 50 frá síðasta aðalfundi. Skrifstofa félagsins er að Óðinsgötu 7 í húsnæði Norræna félagsins á Íslandi og vil ég þakka félaginu fyrir gott samstarf á starfsárinu. Ásta Sól Kristjánsdóttir hefur annast framkvæmda¬stjórn fyrir félagið samhliða því að sinna verkefnastjórn fyrir Snorra verkefnin. Þetta árið er hún í fæðingaorlofi og sinnir Ástrós Signýjardóttir verkefnum hennar.
Utanríkisráðuneytið veitir félaginu mikilvægt fjárframlag sem sýnir að ráðuneytið metur í verki starf félagsins. Þá er félaginu ómetanlegur sá fjárstuðningur sem Icelandair hefur veitt félaginu um árabil. Færi ég þessum aðilum innilegar þakkir. Að öðru leyti stafa tekjur félagsins af greiddum árgjöldum félagsmanna. Eins og fram kemur í skýrslu gjaldkera á fundinum þá varð afgangur á rekstri félagsins árið 2013.
Fræðslu- og kynningarmál
Starf ÞFÍ hefur verið í mikilli sókn að undanförnu. Samkomur sem ÞFÍ hefur staðið fyrir hafa verið vel sóttar. Þá hefur undirritaður verið beðinn að kynna starfsemi ÞFÍ á fundum nokkurra félagssamtaka á höfuðborgarsvæðinu. Fréttabréf hefur komið út reglulega og hafa formaður og Unnur Ýr Kristinsdóttir annast umsjón með útgáfu þess.
Snorraverkefnin
Snorraverkefnið hefur starfað síðan 1999 í mjög góðu samstarfi við Norræna félagið á Íslandi. Gríðarlegur undirbúningur og skipulag liggur að baki komu Snorrana til landsins. Auk þess að skipuleggja menningardagskrá og ferðalag fyrir hópinn, þarf að finna þeim dvalarstað í þrjár vikur hjá ættingjum. Meðal styrktaraðila verkefnisins eru mennta- og menningarmála¬ráðuneytið, Icelandair, Eimskip, Síminn og Landsbanki Íslands.
Á árinu 2013 komu 14 þátttakendur frá Norður Ameríku til 6 vikna dvalar. Tíu þeirra eru frá Kanada og fjórir frá Bandaríkjunum. Alls hafa 212 ungir Snorrar tekið þátt í verkefninu á fimmtán árum. Undantekningarlaust upplifa þátttakendurnir dvölina hér sem ógleymanlegt ævintýr og eru uppfull þakklætis í lok dvalar. Með verkefninu hefur tekist að flytja íslensku arfleifðina í Vesturheimi frá eldri kynslóð til þeirrar yngri.
Þjóðræknisfélagið skipulagði hitting á veitingastaðnum Sólon í miðbæ Reykjavíkur þar sem Snorrarnir hittu íslenska jafnaldra sína. Þar urðu líflegar samræður á milli þess sem hjómsveitin NÓRA spilaði frumsamin lög,
Í byrjun júlí tóku fjórar íslenskar stúlkur þátt í 4 vikna verkefni – Snorri West- þar sem þær ferðuðust um slóðir Íslendinga í Alberta, Saskatchewan og Manitoba. Þessar stúlkur hafa síðan þá verið virkar í starfi Snorrasjóðs og Þjóðræknisfélagsins.
Tekið var á móti 19 manna hópi eldri Snorra frá Norður Ameríku í ellefta sinn í ágúst fyrra og von er á sama fjölda fólks nú í sumar. Verkefnið hefur sannað gildi sitt við að efla samskiptin og ekki er óalgengt að foreldrar eða jafnvel ömmur og afar hafi komið í kjölfar ungmennanna. Alls hafa 126 manns tekið þátt í þessu tveggja vikna Snorra Plus verkefni.
Nú hafa yfir 400 manns tekið þátt í Snorraverkefnunum. Stofnuð voru nemendasamtök – Snorri Alumni Association árið 2001 og er haldið góðu sambandi milli Snorrana. Aðalfundir nemendasamtakanna hafa verið haldnir á Íslendingadeginum í Gimli. Forseti þeirra nú er Marrory Swanson frá Norður-Dakota sem býr nú í St. Paul Minnesota en hún var þátttakandi í Snorraverkefninu 2011.
Samskipti við félög og samtök í Vesturheimi
Um mánaðarmótin júlí/ágúst 2013 tók formaður ÞFÍ Halldór Árnason þátt í Íslendingahátíðinni August the Deuce í Mountain í Norður Dakota og Íslendingadeginum í Gimli í Manitoba. Fyrri hátíðin var haldin í 114. sinn en sú seinni í 124. sinn.
Líkt og nokkur undanfarin ár söfnuðu félagsmenn í deildum Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi – INL of North-America – peningum til styrktar íslenskum mæðrastyrksnefndum sem fulltrúar ÞFÍ afhenda fyrir þeirra hönd framlög til mæðrastyrksnefnda í Hafnarfirði, Kópavogi, Reykjavík, Vesturlandi og á Akureyri.
Ársfundur Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi verður haldinn í Winnipeg dagana 15.-18. maí nk. Halldór Árnason, Svavar Gestsson og Ástrós Signýjardóttir munu sækja fundinn af hálfu ÞFÍ og Snorrasjóðs.
„Vinir í vestri“ – Samstarfsverkefni utanríkisráðuneytis og Þjóðræknisfélagsins
Atli Ásmundsson fv. aðalræðismaður í Winnipeg ákvað sl. vor að fara um allt land á næstu árum á vegum utanríkisráðuneytisins og segja frá kynnum sínum af afkomendum íslensku landnemanna í Kanada í máli og myndum og hvers vegna þeir elska Ísland svo mikið sem raun ber vitni. Atli bauð Þjóðræknisfélaginu þátttöku í þessu ferðalagi til að kynna starfsemi félagsins og var það þakksamlega þegið.
Í júní 2013 ferðaðist Atli um Austurland þar sem hélt fjölmarga fundi. Í framhaldinu hefur hann heimsótt fjölmarga staði og félagasamtök. Má þar nefna Sauðárkrók, Vestmannaeyjar og nú síðast Borgarnes. Samtals eru fundirnir orðnir 25 talsins og fleiri á döfinni. Fundirnir hafa hvarvetna verið afar vel sóttir og margir fundarmanna hafa gengið í Þjóðræknisfélagið.
Samstarf við Vesturfarasetrið á Hofsósi og Þjóðmenningarhús
Þjóðræknisfélagið hefur átt afar gott samstarf við Vesturfarasetrið á Hofsósi og Þjóðmenningarhúsið á undanförnum árum. Ég vil f.h. félagsins þakka Valgeiri Þorvaldssyni og Guðrúnu Garðarsdóttur fyrir afar gott og ánægjulegt samstarf.
Þjóðræknisþing og nýir heiðursfélagar
Þjóðræknisþing var haldið á Hótel Natura 25. ágúst 2013 að viðstöddum rúmlega 200 þátttakendum. Auk formanns ÞFÍ ávörpuðu þingið Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, sendiherrar Bandaríkjanna og Kanada á Íslandi og Ron Goodman, forseti Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi.
Egill Helgason fjölmiðlamaður sagði frá heimsókn sinni á slóðir Vestur-Íslendinga. Gail Einarson-McCleery sagði frá uppbyggingu Snorra West verkefnisins og ungir íslenskir þátttakendur í verkefninu sögðu frá ferð sinni á Íslendingaslóðir í júlí sl.
Að loknu kaffihléi greindi ljóðskáldið og héraðshöfðinginn David Gislason frá Árborg í Manitoba frá Litla íslenska bókmenntafélaginu í Manitoba. Þinginu lauk með erindi Sunnu Furstenau sem hún nefndi „Taking Chances“ og fjallaði um þá lífsfyllingu sem áhugi hennar á íslenskum rótum sínum hefur fært henni.
Á milli dagskrárliða voru tónlistaratriði. Kanadíska messo-sópran söngkonan Christine Antenbring söng við undirleik undirleik hins þekkta píanóleikara Mikhail Hallak. Einnig söng Sigrún Stella Bessason við gítarundirleik. Ég færi öllum þeim sem fluttu fróðleik og skemmtun á kynningarhátíðinni fyrir þeirra framlag.
Á Þjóðræknisþinginu voru Almar Grímsson og Atli Ásmundsson gerðir að heiðursfélögum ÞFÍ sem viðurkenningu fyrir frábært starf fyrir félagið á undanförnum árum. Aðrir heiðursfélagar ÞFÍ eru þau Vigdís Finnbogadóttir fv. forseti, David Gislason í Arborg Manitoba og Magnus Olafson í Mountain, Norður Dakota.
Heiðursráð ÞFÍ
Á Þjóðræknisþinginu var tilkynnt um skipan sérstaks heiðursráðs félagsins. Tilgangur heiðursráðsins er að efla tengsl Íslendinga við afkomendur Íslendinga í Vesturheimi og treysta fjárhagsstöðu félagsins. Í heiðursráðinu eiga sæti einstaklingar sem unnið hafa frábært starf fyrir félagið. Ennfremur formenn eða fulltrúar félagasamtaka, stofnana og fyrirtækja sem styrkja Þjóðræknisfélagið og starfsemi þess sérstaklega. Svavar Gestsson stjórnarmaður í Þjóðræknisfélaginu er formaður ráðsins. Ráðið hélt sinn fyrsta fund 12. nóvember 2013, þar sem m.a. var kynnt hugmynd um skráningu íslenskra handrita og handritabrota í Manitoba. Leitað verður aðstoðar þjóðræknifélaganna vestan hafs. Einnig kom fram áhugi á að efna til rannsóknarsamstarfs um margvísleg verkefni sem til dæmis tengdust þjóðkirkjunni og starfsemi stéttarfélaga auk þeirra verkefna sem þegar er unnið að. Loks kom fram að ætlunin sé að leiklesa eitthvað af leikverkum Guttorms Guttormssonar síðla árs 2014 í Reykjavík undir stjórn Sveins Einarssonar og í samvinnu við Heather Ireland.
Ýmis verkefni ÞFÍ á starfsárinu.
Þjóðræknisfélagið stóð fyrir fyrirlestri í Þjóðmenningarhúsinu 1. júlí 2013 þar sem prófessor Fred E. Woods prófessor við Brigham Young University í Utah greindi í máli og myndum frá rannsókn sinni og og Kára Bjarnasonar forstöðumanns Bókasafns Vestmannaeyja um afdrif Íslendinga sem fluttu búferlum til Utah. Á árunum 1854-1914 fluttu um 400 Íslendingar til Utah sem flestir höfðu tekið mormónatrú áður. Helmingur þessa fólks fór frá Vestmanna¬eyjum, en íbúafjöldinn þar var um 500 manns á þeim tíma. Húsfyllir var á fyrirlestrinum og mikill áhugi á sögu þessa fólks.
Sunna Pam Furstenau frá Fargo í Norður-Dakota hélt hádegiserindi í máli og myndum í Hátíðasal Háskóla Íslands 7. janúar sl. á vegum ÞFÍ í samvinnu við Háskóla Íslands. Erindið, sem um 130 manns hlýddu á, fjallaði um íslensku arfleifðina í Norður-Ameríku. Hvers virði er hún fyrir yngri kynslóðir Íslendinga og Vestur-Íslendinga og hvernig verður henni viðhaldið. Meðal áheyrenda var forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson.
Um alllangt skeið hefur Sunna Pam unnið að ættfræðirannsóknum. Nýlega keypti hún hinn yfirgripsmikla ættfræðigrunn Hálfdánar Helgasonar og stofnaði utan um hann sjálfseignastofnunina Icelandic Roots. Ríkissjónvarpið og Stöð 2 tóku ítarleg viðtöl við Sunnu sem sýnd voru í kvöldfréttum stöðvanna þar sem hún m.a. útlistaði hvernig ættfræðigrunnur hennar getur auðveldað fólki að finna ættingja sína í Vesturheimi þó fjarskyldir séu.
Kynningarfundur Þjóðræknisfélagsins til stuðnings tímaritinu Lögberg-Heimskringlu fór fram í Þjóðmenningarhúsinu 26. febrúar sl. Atli Ásmundsson rifjaði upp mikilvægi útgáfunnar fyrir íslenska samfélagið í Norður-Ameríku og Íslendinga. Hulda Karen Daníelsdóttir og Steinþór Guðbjartsson fyrrverandi ritstjórar blaðsins sögðu frá þeim áherslum sem þau færðu blaðinu á sinni ritstjórnartíð. Almar Grímsson greindi frá stöðu blaðsins nú og framtíðaráherslur. Á milli erinda var boðið upp á tónlistaratriði. Allir ræðumenn lögðu áherslu á að Lögberg-Heimskringla hafi ómetanlega þýðingu í að rækta íslensku arfleifðina í Vesturheimi og samband Vestur-Íslendinga innbyrðis og við Ísland og Íslendinga.
Á fundinum greindi Almar Grímsson frá kostatilboði stjórnar Lögbergs-Heimskringlu. Félagsmönnum Þjóðræknisfélagsins býðst ókeypis rafræn áskrift á blaðinu í 6 mánuði og að því loknu áskrift fyrir 20 Kanadadollar á ári. Þjóðræknisfélagið hefur sent ritstjórn Lögbergs-Heimskringlu netföng félagsmanna sem félagið hefur yfir að ráða.
Hinn þekkti kanadíski sérfræðingur í fornleifarannsóknum Birgitta Wallace kom til Íslands í lok mars sl. á vegum Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi, International Visit Program og ÞFÍ. ÞFÍ í samvinnu við Þjóðminjasafnið stóð fyrir hádegiserindi í sal Þjóðminjasafns Íslands 26. mars þar sem Birgitta fjallaði um landnám norrænna manna á Vínlandi og þær heimildir sem fundist hafa sem styður frásagnir Eiríkssögu rauða og Grænlendingabók um búsetu norrænna manna á Vínlandi fyrir rúmlega þúsund árum og ferðalög þeirra um austurströnd Norður-Ameríku. Um 140 manns hlýddu á erindið.
Í samstarfi við Vesturfarasetrið á Hofsósi fór Birgitta norður í Skagafjörð, skoðaði fornminjar á Hólum og Kolkuósi og hélt erindi um rannsóknir sínar í Auðunarstofu á Hólum í Hjaltadal 28. mars. Þaðan lá leið hennar til Akureyrar þar sem hún hélt erindi í Háskólanum á Akureyri 30. mars í samvinnu við Háskólann á Akureyri, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar of Minjasafn Akureyrar. Birgitta heimsótti ennfremur forseta Íslands á Bessastaði, Víkingaheima í Reykjanesbæ, skoðaði fornminjar í Höfnum og ýmsar stofnanir og hitti fyrirsvarmenn þeirra.
Þjóðræknisfélag Íslendinga stóð fyrir opnum fundi í Húsi atvinnulífsins 25. apríl sl þar sem Vestur-Íslendingurinn Johann Straumfjord Sigurdson kynnti fyrirhugaðan könnunar-leiðangur á skútu sem hefur fengið heitið Fara heim. Leiðangurinn hefst við Winnipegvatn, siglt verður norður í Hudson flóa, áfram þvert yfir flóann til Hudson Strait, um Norðurskautssvæðið meðfram ströndum Grænlands yfir til Íslands og áfram til Noregs.
Verkefnin framundan
Það er verkefni Þjóðræknisfélagsins að efla samstarf og samskipti Íslendinga við afkomendur og samtök Íslendinga í Vesturheimi með öllum tiltækum hætti. Bætt fjarskipti, flugsamgöngur og rafrænir samskiptamiðlar auðvelda okkur það verk. Það verður áfram áhersla okkar að fá ungt fólk til liðs við félagið. Þá vill félagið leitast við að vekja skilning íslenskra stofnana og fyrirtækja á mikilvægi náins sambands við Íslendingabyggðir vestanhafs og fá þau til liðs við félagið. Loks munum við leggja áherslu á að styrkja fjárhagslega stöðu félagsins til að gera því kleift að efla starfsemi sína við að sinna framangreindum verkefnum.
Ég vil að lokum þakka samstarfsfólki mínu í stjórn ÞFÍ, Ástu Sól Kristjánsdóttur og Ástrósu Signýjardóttur framkvæmastjórum fyrir ötult og gefandi starf. Sérstakar þakkir færi ég Eric Stefanson fyrir einstakt og heilladrjúgt starf á liðnum árum en hann lætur nú af setu í stjórn ÞFÍ. Eric hefur verið fulltrúi Íslendingafélaganna í Kanada í stjórn ÞFÍ um langt árabil og átti stóran þátt í að koma á fót Snorra- og Snorra West verkefnunum á sínum tíma.

Halldór Árnason, formaður ÞFÍ


Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2012–2013

Stjórn Þjóðræknisfélags Íslendinga var kosin á aðalfundi félagsins sem haldinn var í Þjóð-menningarhúsinu 11. apríl 2012. Forseti félagsins var kjörinn Halldór Árnason og með honum í stjórn voru Elín Hirst, Eydís Egilsdóttir, Hjálmar W Hannesson, Rögnvaldur Guðmundsson, Svavar Gestsson og Þorvarður Guðlaugsson. Varamenn í stjórn voru þau Jón Trausti Jónsson, Kent Lárus Björnsson og Sigrún Björk Jakobsdóttir. Stjórnarmenn frá Norður Ameríku eru Eric Stefanson Kanada og Sunna Pam Furstenau Bandaríkjunum.
Starfsaðstaða og fjármál
Skrifstofa félagsins er að Óðinsgötu 7 í húsnæði Norræna félagsins á Íslandi og vil ég þakka félaginu fyrir gott samstarf á starfsárinu. Ásta Sól Kristjánsdóttir annast framkvæmda¬stjórn fyrir félagið samhliða því að sinna verkefnastjórn fyrir Snorra verkefnin.
Utanríkisráðuneytið veitir félaginu mikilvægt fjárframlag sem sýnir að ráðuneytið metur í verki starf félagsins til eflingar samstarfsins við Vesturheim. Þá er félaginu ómetanlegur sá fjárstuðningur sem Icelandair hefur veitt félaginu um árabil. Færi ég þessum aðilum innilegar þakkir. Að öðru leyti stafa tekjur félagsins af greiddum árgjöldum félagsmanna. Eins og fram kemur í skýrslu gjaldkera á fundinum þá varð afgangur á rekstri félagsins árið 2012.
Fréttabréf hefur komið út reglulega og hafa forseti og framkvæmdastjóri annast umsjón með útgáfu þess.
Fræðslu- og kynningarmál
Starf Íslendinga meðal Vestur-Íslendinga hefur verið í mikilli sókn að undanförnu og hefur áhugi á því stafi farið vaxandi hér á landi. Það kom vel í ljóst þegar Þjóðræknis¬félagið í samstarfi við Vesturfarasetrið á Hofsósi og Bændaferðir stóð fyrir glæsilegri og fjölbreyttri kynningarhátíð á Hotel Natura í Reykjavík 12. janúar sl. Þjóðræknisfélagið hefur aldrei haldið jafn öfluga samkomu og sóttu hana um 300 manns. Hátíðin var haldin til að kynna starfsemi félagsins og auka vitneskju Íslendinga á þeirri sönnu elsku og hlýju sem streymir frá frændum okkar í Norður Ameríku, afkomendum íslensku landnemanna. Ég færi öllum þeim sem fluttu fróðleik og skemmtun á kynningarhátíðinni fyrir þeirra framlag.
Þjóðræknisfélagið, Kanadíska sendiráðið, Reykjavíkur Akademían og útgefandinn Benson Ranch Inc. stóðu fyrir fagnaði fimmtudaginn 10. maí í Þjóðmenningarhúsinu í tilefni af útgáfu bókarinnar Wakeful Nights. Stephan G. Stephansson: Icelandic-Canadian Poet eftir Viðar Hreinsson. Á samkomunni flutti ávarp Stefan Vilberg Benediktsson, barnabarn Stephans G.
Í október sl. stóðu Þjóðræknisfélagið og Bændaferðir að fjögurra vikna námskeiði. Jónas Þór sagnfræðingur tók fyrir upphaf vesturferða 1870 og fjallaði um landnám fyrstu íslensku vesturfaranna í Wisconsin.
Þá hefur undirritaður verið beðinn að kynna starfsemi ÞFÍ á fundum nokkurra félagssamtaka á höfuðborgarsvæðinu.
Snorraverkefnið
Snorraverkefnið hefur starfað síðan 1999 í mjög góðu samstarfi við Norræna félagið á Íslandi. Það er sýnileg vakning í áhuga á Íslandi og íslenskri arfleifð meðal ungra afkomenda í Norður Ameríku og heimsóknir ungs fólks af íslenskum ættum til Íslands hafa aukist mjög. Þau eru mjög stolt af því að tengjast landi og þjóð.
Á árinu 2012 komu 16 þátttakendur frá Norður Ameríku til 6 vikna dvalar hér á landi. Þar af voru 11 þeirra frá Kanada og 5 frá Bandaríkjunum. Alls hafa 198 ungir Snorrar tekið þátt í verkefninu á fjórtán árum. Undantekningarlaust upplifa þátttakendurnir dvölina hér sem ógleymanlegt ævintýr og eru uppfull þakklætis í lok dvalar. Flestir viðhalda tengslum sínum við ættingja sína og nýja vini að lokinni dvöl og margir koma til Íslands á ný annað hvort á eigin vegum eða með fjölskyldum sínum. Þegar heim er komið gerast mörg þessara ungmenna virk í starfi Íslendingafélaganna í sinni heimabyggð. Þannig hefur verkefnið flutt íslensku arfleifðina í Vesturheimi frá eldri kynslóð til þeirrar yngri.
Gríðarlegur undirbúningur og skipulag liggur að baki komu Snorrana til landsins. Auk þess að skipuleggja menningardagskrá og ferðalag fyrir hópinn þá þarf að finna þeim dvalarstað í þrjár vikur hjá ættingjum. Verkefnisstjórinn Ásta Sól Kristjánsdóttir á mikið hrós skilið fyrir alla þá alúð sem hún leggur í þetta starf.
Meðal styrktaraðila verkefnisins eru mennta- og menningarmálaráðuneytið, Icelandair, Eimskip, Skipti, Landsbanki Íslands og Kaupfélag Skagfirðinga.
Snorri Plus
Tekið var á móti 11 manna hópi eldri Snorra frá Norður Ameríku í tíunda sinn í í ágúst fyrra og von er á fjölmennasta hópi til þessa nú í sumar. Verkefnið hefur sannað gildi sitt við að efla samskiptin og ekki er óalgengt að foreldrar eða jafnvel ömmur og afar hafi komið í kjölfar ungmennanna. Alls hafa 107 manns tekið þátt í þessu tveggja vikna Snorra Plus verkefni.
Snorri West
Undir forystu stjórnar INL of NA tókst að endurvekja Snorra West verkefnið sumarið 2012, en verkefnið lá niðri sumarið 2011. Tvö íslensk ungmenni fóru til fjögurra vikna dvalar til Minnesota, Norður-Dakóta og Manitoba og tóku m.a. þátt í Íslendingadeginum í Gimli. Annað þeirra Gísli Rúnar Gíslason gekk til liðs við stjórn Snorrasjóðs sl. haust. Fyrirhugað er að fjögur íslensk ungmenni taki þátt í verkefninu í sumar og fari til Alberta, Saskatchewan og Manitoba, auk dagsferðar á Íslendingahátíðina í Mountain, Norður Dakota. Alls hafa 62 íslensk ungmenni tekið þátt í Snorra West.
Nemendasamtök – Snorri Alumni Association
Nú hafa um 370 manns tekið þátt í Snorraverkefnunum. Stofnuð voru nemendasamtök árið 2001 og er haldið góðu sambandi milli Snorrana. Aðalfundir nemendasamtakanna hafa verið haldnir á Íslendingadeginum í Gimli. Forseti þeirra nú er Marrory Swanson frá Norður-Dakota sem býr nú í St. Paul Minnesota en hún var þátttakandi í Snorraverkefninu 2011.

Samskipti við félög og samtök í Vesturheimi
Á ársþingi Íslendingafélaganna í Vesturheimi sem haldið var í Brandon í Manitoba dagana 2.-6. maí 2012 var Ron Goodman frá Calgary kosinn forseti samtakanna í stað Gail Einarsson-McCleery. Fyrsti varaforseti var kjörinn Claire Eckley frá Minneapolis og annar varaforseti var kjörinn Sunna Pam Fustenau frá Fargo í Norður Dakota.
Um mánaðarmótin júlí/ágúst í fyrra tók forseti ÞFÍ Halldór Árnason þátt í Íslendingahátíðinni August the Deuce í Mountain í Norður Dakota og Íslendingadeginum í Gimli í Manitoba. Fyrri hátíðin var haldin í 113. sinn en sú seinni í 123. sinn.
Áðurnefnd Sunna Pam Furstenau ferðaðist um Ísland í lok ágúst fram í byrjun september sl. á með stuðningi International Visit Program og Þjóðræknisfélagsins. Á 13 stöðum sagði hún afar áhugaverða sögu Vestur-Íslendinga í Ameríku í máli og myndum sem hún nefndi „The love of Iceland in America.“ Erindi sitt flutti Sunna m.a. á Menningarnótt í Reykjavík og á þjóðræknisþinginu á Akureyri og vakti það verðskuldaða athygli.
Laugardaginn 20. október sl. fór fram í Riverton, Manitoba, afhjúpun á styttu af Sigtryggi Jónassyni sem nefndur hefur verið „faðir“ Nýja Íslands. Fulltrúar Þjóðræknisfélagsins við athöfnina voru hjónin Almar Grímsson, fv. forseti ÞFÍ og Anna Björk Guðbjartsdóttir og Kent Lárus Björnsson, stjórnarmaður í ÞFÍ.
Líkt og nokkur undanfarin ár söfnuðu félagsmenn í deildum Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi – INL of North-America – peningum til styrktar íslenskum mæðrastyrksnefndum sem fulltrúar ÞFÍ afhenda fyrir þeirra hönd framlög til mæðrastyrksnefnda í Hafnarfirði, Kópavogi, Reykjavík, Vesturlandi og á Akureyri.
Ársfundur Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi var haldinn í Seattle í Washingtonríki dagana 4.-7. apríl sl. Halldór Árnason, Kent Lárus Björnsson, Rögnvaldur Guðmundsson og Ásta Sól Kristjánsdóttir sóttu fundinn af hálfu ÞFÍ og Snorrasjóðs.
Þjóðræknisþing
Níunda þjóðræknisþingið var haldið á Akureyri 25. ágúst sl. í tengslum við 150 ára afmæli kaupstaðarins og sóttu það um 80 manns. Þingið heppnaðist í alla staði mjög vel en þingforseti var Almar Grímsson fv. forseti ÞFÍ. Meðal gesta á þinginu voru sendiherrar Bandaríkjanna og Kanada á Íslandi, forseti INL of NA og þátttakendur í Snorra Plus verkefninu. Elín Hirst stjórnarmaður í ÞFÍ sá um allan undirbúning þingsins og kann ég henni bestu þakkir fyrir. Gert er ráð fyrir að þingið 2013 verði haldið í Reykjavík 25. ágúst í sumar.
Samstarf við Vesturfarasetrið á Hofsósi og Þjóðmenningarhús
Þjóðræknisfélagið hefur átt afar gott samstarf við Vesturfarasetrið á Hofsósi og Þjóðmenningarhúsið á undanförnum árum. Ég vil f.h. félagsins þakka fyrir þetta samstarf og sérstakar þakkir færi ég Markúsi Erni Antonssyni, sem um þessar mundir lætur af starfi forstöðumanns Þjóðmenningarhússins, fyrir einstaklega gott og gefandi samstarf.
Verkefni Þjóðræknisfélagsins framundan
Það er einstakt að víða í Kanada og Bandaríkjunum skuli vera félags¬skapur fólks af íslenskum ættum sem í fjórðu og fimmtu kynslóð vilja halda uppi þeim menningararfi sem forfeður þeirra og formæður fluttu með sér vestur um haf fyrir allt að 140 árum. Fólki sem nánast á hverjum degi er upptekið af því að vera íslenskt. Eitt af megin verkefnum okkar næsta árið verður að efla tengsl við þetta fólk með sérstakri áherslu á að fá ungt fólk til liðs við félagið. Í því augnamiði verður settur á fót sérstakur verkefnishópur innan félagsins.
Þjóðræknisfélagið stefnir að því að tvöfalda félagafjöldann á næstu tveimur árum, m.a. með kynningarfundum um allt land. Skráðir félagsmenn Þjóðræknisfélagsins eru nú 410 auk 100 maka og þriggja heiðursfélaga. Frá síðasta aðalfundi hefur þeim fjölgað um 75 talsins. Þá vill félagið leitast við að vekja skilning íslenskra stofnana og fyrirtækja á mikilvægi náins sambands við Íslendingabyggðir vestanhafs og fá þau til liðs við félagið.
Á þessum aðalfundi verður lögð til lagabreyting þess efnis að koma á fót heiðursráði félagsins sem stjórnin skipar. Tilgangur heiðursráðsins er að efla starfsemi í þágu tengsla Íslendinga við Vestur-Íslendinga og treysta fjárhagsstöðu félagsins. Til setu í ráðinu viljum við fá fólk sem unnið hefur frábært starf fyrir félagið og fulltrúa félagssamtaka og stofnana sem styrkja félagið fjárhagslega.
Lokaorð
Samskipti Íslendinga við afkomendur Íslendinga í Vesturheimi fara stöðugt vaxandi og æ fleiri vináttubönd tengjast á milli landanna. Það er og verður markmið félagsins að efla samhygð og samstarf við samtök Íslendinga í Vesturheimi og tengjast fleiri vináttuböndum.
Ég vil nota þetta tækifæri og færa Atla Ásmundssyni og konu hans Þrúði Helgadóttir sérstakar þakkir fyrir mikilvæg störf undanfarin níu ár við að efla samskipti Íslands við Vestur-Íslendinga og náið samstarf þeirra við Þjóðræknisfélagið. Atli mun láta af starfi aðalræðismanns Íslands í Winnipeg í lok maí.
Það er mér mikil ánægja að tilkynna að Atli hefur ákveðið að fara um allt land á næstu árum og segja frá kynnum sínum af Vestur-Íslendingum og hvers vegna þeir elska Ísland svo mikið sem raun ber vitni. Atli hefur boðið Þjóðræknisfélaginu þátttöku í þessu ferðalagi til að kynna starfsemi félagsins og hefur það verið þakksamlega þegið og verður Austurlandið heimsótt í júní mánuði nk.
Við starfi Atla tekur Hjálmar W. Hannesson stjórnarmaður í Þjóðræknisfélaginu. Ég óska Hjálmari til hamingju, þakka honum samstarfið hingað til og vænti mikils af áframhaldandi samstarfi við hann og Önnu konu hans á komandi árum.
Ég vil að lokum þakka samstarfsfólki mínu í stjórn ÞFÍ og Ástu Sól Kristjánsdóttur framkvæmastjóra fyrir ötult og gefandi starf. Sérstakar þakkir færi ég Kent Lárus Björnsson fyrir einstakt og heilladrjúgt starf á liðnum árum en hann hefur óskað eftir að láta af störfum í stjórn félagsins.

Halldór Árnason, forseti ÞFÍ


Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2010–2011

Stjórn Þjóðræknisfélags Íslendinga var kosin á aðalfundi félagsins sem haldinn var í Þjóð-menningarhúsinu 16. maí 2011. Almar Grímsson sem verið hafði forseti Þjóðræknis¬félagsins frá árinu 2003 gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Nýr forseti Þjóðræknisfélagsins var kjörinn Halldór Árnason og með honum í stjórn voru Alexía Björg Jóhannesdóttir, Guðríður Sigurðardóttir, Helgi Ágústsson, Svavar Gestsson, Þorvarður Guðlaugsson og Þóra Hrönn Njálsdóttir. Varamenn í stjórn voru þau Guðrún Jónsdóttir, Kent Lárus Björnsson og Rögnvaldur Guðmundsson. Samkvæmt lögum félagsins sat Almar Grímsson áfram í stjórninni sem fráfarandi formaður. Stjórnarmenn frá Norður Ameríku: Eric Stefanson Kanada og Pam Olafson Furstenau Bandaríkjunum.

Starfsaðstaða og fjármál
Skrifstofa félagsins er að Óðinsgötu 7 í húsnæði Norræna félagsins á Íslandi og vil ég þakka félaginu fyrir góð samskipti á starfsárinu. Ásta Sól Kristjánsdóttir annast framkvæmda¬stjórn fyrir félagið samhliða því að sinna verkefnisstjórn fyrir Snorra verkefnin.
Utanríkisráðuneytið heldur áfram að veita félaginu stuðning og hefur sýnt í verki að starf félagsins í eflingu samstarfsins við Vesturheim er mjög vel metið. Að öðru leyti stafa tekjur félagsins af greiddum árgjöldum félagsmanna. Eins og fram kemur í skýrslu gjaldkera á fundinum þá varð afgangur á rekstri félagsins árið 2011.
Ný heimasíða félagsins var tekin í notkun í febrúar sl. og verður auðveldar en áður að setja fréttir inn á síðuna og möguleikar á myndefni verða meiri. Það verður keppikefli stjórnar ÞFÍ að félagsmenn geti í gegnum síðuna verið betur upplýstir um það sem er á dagskrá félagsins hverju sinni. Kent Lárus Björnsson sá um uppsetningu og viðhald eldri vefsíðu og vænti ég áframhaldandi liðsinnis hans á því sviði. Fréttabréf hefur komið út reglulega og hafa Ásta Sól og Þóra Hrönn Njálsdóttir ásamt forseta komið að útgáfu og umsjón þess. Færi ég þeim bestu þakkir fyrir.

Fræðslu- og kynningarmál
Þjóðræknisfélagið og utanríkisráðuneytið héldu þrjá sameiginlega kynningarfundi á starfsárinu. Uppistaða þeirra funda var afar áheyrilegt og stórfróðlegt erindi Atla Ásmundssonar, aðalræðismanns Íslands í Winnipeg, þar sem hann í máli og myndum sagði frá kynnum sínum af fjölda af áhugaverðu fólki af íslenskum ættum í Manitoba á þeim átta árum sem hann hefur starfað sem aðalræðismaður þar. Fyrsti fundurinn var í byrjun september á Vopnafirði þaðan sem um 3.000 manns silgdu til Vesturheims. Í desember var fundur hjá Félagi eldri borgara í Reykjavík og í lok mars funduðu Atli og Almar Grímsson á Amtbókasafninu á Akureyri fyrir fullu húsi. Færi ég Atla Ásmundssyni kærar þakkir fyrir hans mikilvæga framlag til stuðnings Þjóðræknisfélaginu á þessu sviði sem og öðrum.
Þjóðræknisfélagið efndi til tveggja fræðslufunda á starfsárinu. Þann 25. febrúar sl. hélt Bjarki Sveinbjörnsson forstöðumaður Tónlistarsafns Íslands erindi um heimildir sem hann hefur aflað um sögu íslenskrar tónlistar og tónskálda af íslenskum ættum í Kanada og flutti tóndæmi og viðtöl því til stuðnings. Þann 6. mars sl. hélt Elín Hirst fjölmiðlakona erindi um gerð heimildarmyndar sinnar ,,Síðasta ferðin” sem fjallar um leit Elínar að forfeðrum sínum í Vesturheimi. Að erindinu loknu var heimildarmyndin sýnd.

Snorraverkefnin
Snorraverkefnið hefur starfað síðan 1999 í mjög góðu samstarfi við Norræna félagið á Íslandi. Á árinu 2011 komu 11 þátttakendur frá Norður Ameríku til 6 vikna dvalar hér á landi. Allir dvöldu hjá ættingjum sínum í þrjár vikur og tóku þátt í starfsþjálfun. Þetta var í fyrsta sinn sem fleiri komu frá Bandaríkjunum en Kanada og kom einn þátttakandinn alla leið frá Hawai. Alls hafa 193 ungir Snorrar tekið þátt í verkefninu á þrettán árum. Ríkissjóður veitti verkefninu 3 m.kr. framlag af fjárlögum og að auki hefur verkefnið fengið mikilvægan fjárhagslegan stuðning frá nokkrum fyrirtækjum. Það er forgangsmál ÞFÍ að verkefnið haldi áfram að vaxa og dafna og það stefnir í að þátttakendur í verkefninu í sumar verði 16 en það er hámarksfjöldi. Ásta Sól Kristjánsdóttir er sem fyrr verkefnisstjóri og skipuleggjandi verkefnisins. Verkefnisstjóri heldur mjög góðu sambandi við Snorrana og fregnir berast um mjög öfluga þátttöku margra þeirra í starfi félagsdeilda og heildarsamtakanna INL of North America.
Það er sýnileg vakning í áhuga á Íslandi og íslenskri arfleifð meðal ungra afkomenda í Norður Ameríku og heimsóknir ungs fólks af íslenskum ættum til Íslands hafa aukist mjög. Þau eru mjög stolt af því að tengjast landi og þjóð. Þjóðræknisfélagið hefur því metnað til að kynna Íslendingum enn betur þá menningarlegu arfleifð sem er að finna meðal Vestur-Íslendinga.

Snorri Plus
Tekið var á móti hópi eldri Snorra í níunda sinn í fyrra og von á þeim tíunda nú í sumar. Verkefnið hefur sannað mikið gildi sitt til að efla samkiptin og ekki er óalgengt að foreldrar eða jafnvel ömmur og afar hafi komið í kjölfar ungmennanna. Alls hafa 97 manns tekið þátt í Snorra Plus.

Nemendasamtök – Snorri Alumni Association
Nú hafa samtals rúmlega 300 manns tekið þátt í Snorraverkefnunum. Stofnuð voru nemendasamtök árið 2001 og er haldið góðu sambandi milli Snorrana. Aðalfundir nemendasamtakanna hafa verið haldnir á Íslendingadeginum í Gimli. Forseti þeirra nú er Marrory Swanson frá Norður-Dakota sem býr nú í St. Paul Minneapolis en hún var þátttakandi í Snorraverkefninu 2011.

Samskipti við félög og samtök í Vesturheimi
Líkt og nokkur undanfarin ár söfnuðu félagsdeildir Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi – INL of North America – peningum til styrktar íslenskum mæðrastyrksnefndum sem fulltrúar ÞFÍ afhenda fyrir þeirra hönd framlög til mæðrastyrksnefnda í Hafnarfirði, Kópavogi, Reykjavík, Vesturlandi og á Akureyri.
Svavar Gestsson stjórnarmaður í Þjóðræknisfélaginu flutti hátíðarræðu við styttu Jóns Sigurðssonar í Winnipeg á 200 ára afmæli Jóns. Þá gekkst afmælisnefndin um 200 ára afmæli Jóns fyrir sýningu á einþáttungi Sveins Einarssonar um Jón Sigurðsson og var verkið flutt í Mountain, Winnipeg og Markerville afmælishelgina. Á sama tíma var David Gislason bóndi á Svaðastöðum í Arborg, Manitoba, sérstakur gestur á hátíðarhöldum á Hrafnseyri og flutti hann kveðju frá Vestur-Íslendingum.
Um mánaðarmótin júlí/ágúst í fyrrasumar tóku forseti og fráfarandi forseti ÞFÍ, Halldór Árnason og Almar Grímsson, þátt í Íslendingahátíðinni August the Deuce í Mountain í Norður Dakota og Íslendingadeginum í Gimli í Manitoba. Fyrri hátíðin var haldin í 112. sinn en sú seinni í 122. sinn. Í Gimli áttu þeir Halldór og Almar fund með forsvarsmönnum INL of North America og Íslendingadagsins um að endurvekja Snorra West verkefnið, en verkefnið lá niðri síðasta sumar. Árangur þeirra viðræðna er sá að 3-4 ungir Íslendingar fara til fjögurra vikna dvalar til Minnesota, Norður-Dakóta og Manitoba í júlí nk.
Forseti INL of North America, Gail Einarsson-McCleery hefur sýnt samstarfi við Þjóðræknisfélagið sérstakan áhuga og sótti hún Ísland heim í ágúst og um jól og áramót og dvaldi hér í nokkrar vikur í hvort sinn.
Ársfundur Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi – INL of North America verður haldinn í Brandon í Manitoba fyrstu dagana í maí nk. og munu Halldór Árnason og Ásta Sól Kristjánsdóttir sækja fundinn af hálfu ÞFÍ og Snorrasjóðs.

Steinasafn til Vesturheims
Á Íslendingadeginum í Gimli síðasta sumar afhenti Steingrímur J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra stjórnvöldum í Manitoba íslenskt steinasafn sem hjónin Snjólaug Dagsdóttir og Þorsteinn Þorleifsson á Akranesi höfðu ákveðið að gefa til Vesturheims. Um er að ræða sýnishorn af öllum steintegundum sem fundist hafa í íslenska steinaríkinu. Steinasafnið hefur verið sett upp til sýnis í New Iceland Heritage Museum í Gimli í Manitoba Kanada sem verður formlegur eigandi steinasafnsins.

Þjóðræknisþing
Áttunda þjóðræknisþingið var haldið á Hofsósi 28. ágúst sl. og sóttu það um 65-70 manns. Þingið heppnaðist í alla staði mjög vel en þingforseti og skipuleggjandi þess var Helgi Ágústsson fv. sendiherra. Gert er ráð fyrir að þingið 2012 verði haldið á Akureyri 25. ágúst í sumar í tengslum við 150 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar.

Samstarf við Vesturfarasetrið á Hofsósi og Þjóðmenningarhús
Undirrituð var samstarfsyfirlýsing við Vesturfarasetrið fyrir sex árum og hefur samstarfið gengið mjög vel. Aðilar starfa að sömu markmiðum og hefur ÞFÍ í ræðu og riti hvatt fólk vestra að skipuleggja ferðir til Íslands og heimsækja Vesturfarasetrið og
jafnframt mælt með ferðum innlendra þangað. Mjög gott samstarf er einnig við Þjóðmenningarhúsið. Samstarfssamningur milli ÞFÍ og Þjóðmenningarhúss var gerður fyrir fimm árum. Fyrir hönd stjórnar ÞFÍ vil ég þakka fyrir þetta samstarf.

Þjóðræknisfélagið á hugarflugi
Starf félagsins hefur gengið vel á undanförnum árum og við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að leita allra leiða til að viðhalda og efla starfið enn frekar. Stjórn ÞFÍ hefur ákveðið sérstakt átak í ár við að fjölga félagsmönnum og auka kynningarfundi um allt land. Þá er fyrirhugað að nota tímann fram að Þjóðræknisþingi nú í sumar að móta áherslur félagsins til næstu ára. Leitað var til félagsmanna í þessu skyni og þeir beðnir um að segja álit sitt á félaginu og framtíðaráherslum. Niðurstaða þeirra svara sem þegar hafa borist er sú að það sé tiltölulega góð sátt um félagið. Félagsaðildin byggist á almennum áhuga á að efla tengsl við Vestur-Íslendinga – sem sannarlega kemur ekki á óvart! Það er vilji til að efla félagið og gera það sýnilegra. Kynningarfundirnir með Atla Ásmundssyni eru tilgreindir sem got fordæmi. Þá eru flestir þeirra sem svöruðu tilbúnir til að gefa félaginu meiri tíma. Ennþá er tími fyrir félagsmenn til að senda inn sjónarmið sín og tillögur. Stjórnarmennirnir Svavar Gestsson og Rögnvaldur Guðmundsson hafa haft umsjón með þessari stefnumótun.
Þá efndi stjórn ÞFÍ til samkeppni um nýtt nafn á félaginu en heitið Þjóðræknisfélag Íslendinga þykir bæði strembið í framburði og mörgum torskilið. Á aðalfundi félagsins vera kynntar nokkrar hugmyndir sem fráfarandi stjórn leggur til að unnið verði með áfram. Nýtt heiti verði þannig að heitið Þjóðræknisfélag Íslendinga geti verið undirtitill hins nýja nafns. Þá er æskilegt að auðvelt verði að þýða hið nýja nafn yfir á ensku.

Lokaorð
Félagsmönnum Þjóðræknisfélagsins hefur fjölgað allnokkuð á árinu 2011 og er vonast til að enn fleiri gangi til liðs við félagið á árinu 2012. Fjöldi félagsmanna er nú 340 auk 93 maka og þriggja heiðursfélaga. Frá síðasta aðalfundi hefur félagsmönnum fjölgað um rúmlega 50 talsins.
Samskipti Íslendinga við afkomendur Íslendinga í Vesturheimi fara stöðugt vaxandi og æ fleiri vináttubönd tengjast á milli landanna. Það er óvíða í heiminum sem slík þjóðrækni lifir jafngóðu lífi og hjá Vestur-Íslendingum í Norður Ameríku.
Ég vil að lokum þakka samstarfsfólki mínu í stjórn ÞFÍ fyrir ötult og gefandi starf. Almar Grímsson sem setið hefur í stjórn félagsins frá árinu 1999 og þar af verið formaður félagsins í 9 ár lætur nú af störfum í stjórn félagsins og vil ég þakka honum sérstaklega fyrir ómetanlegt starf í þágu ÞFÍ. Þá hafa þau Alexía Björg Jóhannesdóttir, Guðríður Sigurðardóttir, Guðrún Jónsdóttir, Helgi Ágústsson og Þóra Hrönn Njálsdóttir óskað eftir að láta af störfum í stjórn félagsins og færi ég þeim einnig sérstakar þakkir fyrir heilladrjúgt starf.

Halldór Árnason, forseti ÞFÍ