Áhugavert erindi og skemmtileg 20 mínútna heimildamynd verða á fræðslufundi Þjóðræknisfélags Íslendinga (ÞFÍ) þriðjudaginn 14. nóvember nk. kl. 16:30 í aðalbyggingu utanríkisráðuneytisins, Rauðarárstíg 25.
Gísli Sigurðsson flytur erindið – Mál og menning í frásögnum Vesturíslendinga. Gísli Sigurðsson er rannsóknarprófessor við Árnastofnun. Hann lærði við HÍ, hjá Haraldi Bessasyni í Winnipeg og í Dyflinni. Rannsóknir hans hafa beinst að textum með rætur í munnlegri hefð að fornu og nýju. Hann hefur skrifað um gelísk áhrif á Íslandi, túlkun fornra texta í ljósi munnlegrar hefðar og gefið út eddukvæði og bókina Sögur úr Vesturheimi (2012) ásamt hljóðritunum sem má nálgast hér: http://www.arnastofnun.is/page/sogururvesturheimi_um_bokina.
Jón E. Gústafsson sýnir myndina – Olivia & Fjola – The Johnson Twins from Lonely Lake. Jón E. Gústavsson lærði kvikmyndagerð í Manchester á Englandi og leikstjórn í Kaliforníu. Hann bjó og starfaði í Kanada í átta ár þar sem hann gerði heimildamyndir fyrir CBC, kvikmyndina Kanadiana, tónlistarmyndbönd og einnig setti hann upp þrjár leiksýningar í Gimli. Nú rekur hann kvikmyndafyrirtækið Artio Films á Íslandi. Jón hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir myndir sínar á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum. Jón var, ásamt Janis Johnson, upphafsmaður kvikmyndahátíðarinnar í Gimli, Manitoba er hann vann á aðalræðisskrifstofu Íslands í Winnipeg. Heimildamyndin um Johnson tvíburana var gerð fyrir dætur þeirra, Sonju og Lindu Lundstrum, í tilefni 90 ára afmælis mæðra þeirra.