Í byrjun júlí sl. bauð Vestur-Íslendingurinn Eric Stefanson til samveru til að minnast og gleðjast yfir lífsstarfi bróður síns Kristjan Stefanson hæstaréttardómara í Winnipeg sem lést 2. mars sl. á 72. aldursári.
Kris, eins og hann jafnan var nefndur, er ógleymanlegur öllum sem honum kynntust. Það var alltaf sólskin í návist Kris og hans sérstaka skopskyn létti hverjum lund. Hann var örlátur svo af bar. Í áratugi annaðist hann íslenska boðsgesti á Íslendingadeginum í Gimli af mikilli reisn. Ísland var honum ætíð ofarlega í huga eins og fjölmargar heimsóknir hans til Íslands bera vitni um. Hér eignaðist hann marga vini og naut þess að ferðast um landið ásamt Eric bróður sínum.
Við sama tækifæri var Eric afhent skjal sem staðfesti nafnbót hans sem heiðursfélagi Þjóðræknisfélags Íslendinga. Eric er heiðraður fyrir áratuga óeigingert starf, m.a. í stjórn Þjóðræknisfélagsins, fyrir hans frumkvæði að stofnun Snorra verkefnanna og ómetanlegan stuðning við verkefnin alla tíð, við að koma á auknum tengslum milli Vestur-Íslendinga og Íslendinga á sviði menningar og viðskipta. Eric á sem heiðursfélagi sæti í Heiðursráði ÞFÍ, en tilgangur þess er að efla tengsl Íslendinga við afkomendur Íslendinga í Vesturheimi og treysta fjárhagsstöðu félagsins.
Á meðfylgjandi mynd er Eric eftir að hafa tekið við heiðursfélagaskjalinu úr hendi Halldórs Árnasonar formanns Þjóðræknisfélagins.