Vestur-Íslendingurinn og Íslandsvinurinn Kristjan Stefanson ler látinn í Winnipeg tæplega 72 ára að aldri. Kris, eins og hann var gjarnan nefndur, var einstakur heiðursmaður og öðlingur. Örlátur var hann svo af bar og nutu þess fjölmargir sem urðu á vegi hans. Hann var „andlit“ Íslendingadagsins í Gimli í áratugi, annaðist boðsgesti og var tengiliður við fjölmiðla svo fátt eitt sé nefnt. Hann ræktaði íslensku arfleifð sína af einskærri ást og virðingu. Ísland var honum ætíð ofarlega í huga eins og fjölmargar heimsóknir hans hingað til lands bera vitni um. Góðs drengs er sárt saknað.

Kris fædd­ist í Eriks­dale í Manitoba 14. maí 1944 og var því á 72. ald­ursári. For­eldr­ar hans voru Ei­rík­ur Stef­áns­son, þingmaður íhalds­manna á kanadíska þing­inu 1958 til 1968, og Sigrún Sig­fús­dótt­ir (Stef­an­son, áður Sig­urd­son). For­eldr­ar Ei­ríks voru Kristján Stef­áns­son (f. 1873) frá Und­ir­vegg í Keldu­hverfi og Rann­veig Ei­ríks­dótt­ir (f. 1877) frá Hrær­eks­læk í Hró­arstungu í Norður-Múla­sýslu. For­eldr­ar Sigrún­ar voru Sig­fús Sig­urðsson (f. 1874) frá Klömbrum í Reykja­dal og Sig­ur­laug Jóns­dótt­ir Frí­manns Sig­urd­son (f. 1878) frá Ási í Keldu­hverfi. Ei­rík­ur og Sigrún eignuðust fjóra syni, Denn­is, sem lést 2010, Tom, Kris og Eric.

Kris ólst upp á Gimli. Hann lauk laga­námi við Manitoba-há­skóla 1969, var sak­sókn­ari í Manitoba frá 1973-1993 og hæsta­rétt­ar­dóm­ari (Court of Qu­een’s Bench) frá 1993.

Bræðurn­ir Kris og Eric Stef­an­son, fyrr­ver­andi ráðherra í Manitoba, unnu að því að styrkja tengsl Manitoba við Ísland frá 1984 og heim­sóttu Ísland sam­an í þeim til­gangi yfir 40 sinn­um. Kris var í mót­töku­nefnd Íslend­inga­dags­ins á Gimli í um 40 ár og þar af sem formaður í nær þrjá ára­tugi. Sem slík­ur tók hann á móti öll­um sér­stök­um gest­um frá Íslandi, greiddi götu þeirra og hélt þeim og öðrum gest­um sér­staka veislu í lok hátíðar á eig­in kostnað. Fyr­ir tveim­ur árum heiðraði Íslend­inga­dags­nefnd hann fyr­ir að hafa unnið manna mest í þágu vest­ur-ís­lenska sam­fé­lags­ins í Manitoba í tengsl­um við sam­skipti þess við Ísland og út­nefndi hann heiðurs­fé­laga Íslend­inga­dags­nefnd­ar. Meðfylgjandi mynd var tekin við það tækifæri.

Þjóðræknisfélag Íslendinga þakkar Kris vináttu og mikils metna samfylgd og sendir bræðrum hans og ættingjum innilegar samúðarkveðjur.

 

Hér að neðan er tilvísun í viðtal Steinþórs Guðbjartssonar við Kristjan og birtist í Morgunblaðinu 14. maí 2014 í tilefni af 70 ára afmæli hans.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/14/gestgjafi_islendinga_i_naer_30_ar/