Vestur-Íslendingurinn og Íslandsvinurinn Kristjan Stefanson ler látinn í Winnipeg tæplega 72 ára að aldri. Kris, eins og hann var gjarnan nefndur, var einstakur heiðursmaður og öðlingur. Örlátur var hann svo af bar og nutu þess fjölmargir sem urðu á vegi hans. Hann var „andlit“ Íslendingadagsins í Gimli í áratugi, annaðist boðsgesti og var tengiliður við fjölmiðla svo fátt eitt sé nefnt. Hann ræktaði íslensku arfleifð sína af einskærri ást og virðingu. Ísland var honum ætíð ofarlega í huga eins og fjölmargar heimsóknir hans hingað til lands bera vitni um. Góðs drengs er sárt saknað.
Kris fæddist í Eriksdale í Manitoba 14. maí 1944 og var því á 72. aldursári. Foreldrar hans voru Eiríkur Stefánsson, þingmaður íhaldsmanna á kanadíska þinginu 1958 til 1968, og Sigrún Sigfúsdóttir (Stefanson, áður Sigurdson). Foreldrar Eiríks voru Kristján Stefánsson (f. 1873) frá Undirvegg í Kelduhverfi og Rannveig Eiríksdóttir (f. 1877) frá Hrærekslæk í Hróarstungu í Norður-Múlasýslu. Foreldrar Sigrúnar voru Sigfús Sigurðsson (f. 1874) frá Klömbrum í Reykjadal og Sigurlaug Jónsdóttir Frímanns Sigurdson (f. 1878) frá Ási í Kelduhverfi. Eiríkur og Sigrún eignuðust fjóra syni, Dennis, sem lést 2010, Tom, Kris og Eric.
Kris ólst upp á Gimli. Hann lauk laganámi við Manitoba-háskóla 1969, var saksóknari í Manitoba frá 1973-1993 og hæstaréttardómari (Court of Queen’s Bench) frá 1993.
Bræðurnir Kris og Eric Stefanson, fyrrverandi ráðherra í Manitoba, unnu að því að styrkja tengsl Manitoba við Ísland frá 1984 og heimsóttu Ísland saman í þeim tilgangi yfir 40 sinnum. Kris var í móttökunefnd Íslendingadagsins á Gimli í um 40 ár og þar af sem formaður í nær þrjá áratugi. Sem slíkur tók hann á móti öllum sérstökum gestum frá Íslandi, greiddi götu þeirra og hélt þeim og öðrum gestum sérstaka veislu í lok hátíðar á eigin kostnað. Fyrir tveimur árum heiðraði Íslendingadagsnefnd hann fyrir að hafa unnið manna mest í þágu vestur-íslenska samfélagsins í Manitoba í tengslum við samskipti þess við Ísland og útnefndi hann heiðursfélaga Íslendingadagsnefndar. Meðfylgjandi mynd var tekin við það tækifæri.
Þjóðræknisfélag Íslendinga þakkar Kris vináttu og mikils metna samfylgd og sendir bræðrum hans og ættingjum innilegar samúðarkveðjur.
Hér að neðan er tilvísun í viðtal Steinþórs Guðbjartssonar við Kristjan og birtist í Morgunblaðinu 14. maí 2014 í tilefni af 70 ára afmæli hans.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/14/gestgjafi_islendinga_i_naer_30_ar/