Aðalfundur Þjóðræknisfélags Íslendinga (ÞFÍ) var haldinn í utanríkisráðuneytinu, 12. apríl 2018. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum, þar sem gefin var skýrsla stjórnar um starfsemina 2017-2018 og ný stjórn kjörin, voru flutt tvö fróðleg og skemmtileg erindi.

Kjörin til tveggja ára árinu áður voru Hjálmar W. Hannesson formaður félagsins, Hulda Karen Daníelsdóttir varaformaður, Gísli Sigurðsson ritari og Soffía Óskarsdóttir meðstjórnandi. Þau sátu því áfram í stjórninni. Þorvarður Guðlaugsson, gjaldkeri, Erin Jones og Sigurður Rúnar Jónmundsson voru kjörin aðalmenn til tveggja ára. Jón E. Gústafsson og Kristín M. Jóhannsdóttir voru áfram kjörin í varastjórn. Sandra Björg Ernudóttir var kjörin ný í varastjórn. Stjórnarmenn frá Norður Ameríku voru áfram Jóel Fridfinnsson frá Manitóba í Kanada og Sunna Pam Furstenau frá Norður Dakóta í Bandaríkjunum. Skoðunarmaður reikninga var kjörinn Sigurður Þórðarson.

Að loknu kaffihléi flutti Sunna Pam Furstenau, fráfarandi forseti Þjóðræknisfélags Íslendinga í Norður Ameríku (INL NA) erindið “Once Upon a Time” við mjög góðar undirtektir viðstaddra. Sunna er einstök og tilfiningarík ræðukona og mikill áhugamaður um viðhald sterkra tengsla yfir hafið. Henni voru þökkuð margskonar störf í þágu tengsla Vestur-Íslendinga og Íslendinga. Formaður afhenti henni skjal þar sem fram kom að stjórn ÞFÍ hefði ákveðið að skipa hana heiðursfélaga Þjóðræknisfélags Íslendinga. Hún situr því í heiðursráði ÞFÍ. Við erum afar ánægð með að fá að njóta starfskrafta hennar áfram.

Magnús Þór Þorbergsson flutti síðan stórskemmtilegt erindi um “Leiklistarstarfsemi Vestur-Íslendinga 1880-1950 og var afar athyglisvert að heyra hversu mikil og blómleg leiklistarstarfsemi var meðal íslensku innflytjendanna í Norður Ameríku.

Fjöldi félagsmanna er u.þ.b. 490, auk rúmlega 100 maka. ÞFÍ hefur haft skrifstofuaðstöðu  sem Snorrasjóður leigir að Óðinsgötu 7 í húsnæði Norræna félagsins.  Halldór Árnason, fyrrum formaður ÞFÍ, gegnir mikilvægum störfum fyrir ÞFÍ sem formaður stjórnar Snorrasjóðsins og nú einnig Heiðursráðs ÞFÍ. Ásta Sól Kristjánsdóttir var í fullu starfi sem verkefnastjóri Snorrasjóðs og sinnti samhliða nokkrum verkefnum fyrir ÞFÍ. 

Að vanda var starfsemi ÞFÍ umfangsmikil og fjölbreytt eins og nánar verður greint frá hér á eftir. Stjórn ÞFÍ hélt a.m.k. einn stjórnarfund í mánuði.

Snorraverkefnin

Snorraverkefnin eru þýðingarmestu verkefnin sem Þjóðræknisfélagið kemur að. Þau hafa verið starfrækt frá árinu 1999 í samstarfi við Norræna félagið á Íslandi. Á þessu ári er haldið upp á 20 ára afmæli verkefnisins. Mikill undirbúningur og skipulag liggur að baki komu Snorranna, vestur íslenskra ungmenna, til landsins. Auk þess að skipuleggja menningardagskrá og ferðalag fyrir hópinn, þarf að finna þeim dvalarstaði í þrjár vikur hjá ættingjum.

Alls tóku 15 vestur-íslensk ungmenni þátt í Snorraverkefninu 2018. Þar af voru 10 frá Kanada en 5 frá Bandaríkjunum. Að venju dvöldu þátttakendurnir 6 vikur á Íslandi: Tvær vikur í Reykjavík, þrjár vikur í heimabyggð forfeðra- og mæðra og síðustu vikuna var farin sameiginleg ferð um íslenska merkisstaði. Undantekningarlaust upplifa þátttakendurnir dvölina hér sem ógleymanlegt ævintýr. Ungmennin kappkosta langflest í framhaldinu að halda sambandi við ættingja þar sem þau dvöldu og vini sem þau eignuðust hér á landi.

Fjögur íslensk ungmenni voru valin í Snorra West verkefnið sem stóð yfir í 4 vikur frá miðjum júní til miðs júlí. Ungmennin fóru til Washington DC, Ontario, Nova Scotia og L´Anse Aux Meadows á Nýfundnalandi. Félög Vestur-Íslendinga sáu um móttökur og skipulag.

Snorri Plús:

Tekið var á móti hópi eldri Snorra frá Norður Ameríku í 17. sinn um miðjan ágúst 2018. Þátttakendurnir fimmtán voru á aldrinum 36 – 79 ára. Að vanda dvaldi hópurinn eina viku í Reykjavík og sótti fróðlega fyrirlestra. Líkt og áður, var móttaka fyrir ættingja þátttakenda á skrifstofu Norræna félagsins í upphafi heimsóknarinnar. Hópurinn tók þátt í Menningarnótt og Reykjarvíkurmaraþoni áður en haldið var í sameiginlega ferð um Ísland. Verkefnið hefur sannað gildi sitt við að efla samskiptin milli ættingja beggja vegna hafsins. Alls hafa yfir 200 manns tekið þátt í þessu tveggja vikna Snorra Plus verkefni.

Starfsnám fyrir Snorra á Vesturfarasetrinu.

Vesturfarasetrið á Hofsósi, kanadíska sendiráðið, bandaríska sendiráðið, Þjóðræknisfélag Íslendinga og Icelandair stóðu í fimmta sinn fyrir verkefninu Snorri Alumni Internship sumarið 2018. Tveimur fyrrum Snorrum, einum frá Bandaríkjunum öðrum frá Kanada, gafst kostur á að dvelja á Vesturfarasetrinu á Hofsósi í átta vikur, auk viku í Reykjavík fyrir og eftir. Þau komu til landsins um miðjan júní og dvöldu hér á landi til loka ágúst. Þjóðræknisfélagið sá um að auglýsa verkefnið meðal fyrrum Snorra þátttakenda og sjá þátttakendum fyrir húsnæði og fæði þann tíma sem þeir dvöldu í Reykjavík í upphafi og lok verkefnisins.

Nýtt Snorra verkefni: Snorri Deaf.

Tveir íslenskir heyrnarlausir þátttakendur fóru um miðjan september sl. til Minnesota, Norður Dakóta og Manitóba. Snorri Deaf verkefnið er tilraunaverkefni og gert er ráð fyrir samskonar heimsókn hernarlausra Vestur-Ísledinga til Íslands.

Formaður stjórnar Snorrasjóðs er Halldór Árnason, fyrrverandi formaður ÞFÍ, en aðrir fulltrúar ÞFÍ í stjórn sjóðsins eru Eydís Egilsdóttir og Ástrós Signýjardóttir. Ásta Sól Kristjánsdóttir hefur verið verkefnastjóri Snorrasjós frá upphafi, en hefur nú látið af störfum. Stjórn ÞFÍ þakkar verkefnisstjóra heilladrjúg störf á umliðnum árum við skipulag og framkvæmd Snorraverkefnanna og óskar henni alls hins besta.

Stjórn Snorrasjóðs, undir forystu Halldórs, hefur þegar tryggt að umsvif Snorraverkefnanna næsta árið verða með sama sniði og áður og nýtur í því sambandi óskoraðs trausts stjórnar ÞFÍ. Tuttugu vestur-íslensk ungmenni sóttu um þátttöku í Snorraverkefninu 2019 í sumar og hafa sautján þegar verið valin. Tíu íslensk ungmenni sóttu um þátttöku í Snorra-West verkefninu.

Þjóðræknisþing

Glæsilegt Þjóðræknisþing var haldið á Hótel Natura 19. ágúst 2018 að viðstöddu fjölmenni. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá:  Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ávarpaði þingið, nýkomin að vestan eftir þátttöku í hátíðarhöldunum í Mountain, Norður Dakóta og Íslendingadeginuum í Gimli, Manitóba. Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður sendi kveðjur, en ávörp fluttu sendiherra Kanada, varasendiherra Bandaríkjanna og Beverly Arason Gaudet, nýr forseti INL NA (Þjóðræknisfélag Íslendinga í N. Ameríku). Commander Douglas Hanson sagði frá “Discovering my Icelandic Story”. Þá sungu “Voces Thules” nokkur lög og var þeim vel fagnað. Að loknu kaffihléi flutti Eliza Reid, forsetafrú, bráðsnjallt og skemmtilegt erindi, “My Iceland Story.”  Jakob Þór Kristjánsson flutti mjög athyglisvert erindi: “Vestur-íslenskir piltar í víti  fyrri heimstyrjaldarinnar.“ Loks sögðu ungir íslenskir þátttakendur í Snorra West verkefninu frá ferð sinni á Íslendingaslóðir í N. Ameríku og Ásta Sól verkefnastjóri sýndi myndir. Á þinginu var Svavari Gestssyni, fyrrverandi ráðherra og sendiherra,  þökkuð margvísleg störf fyrir ÞFÍ og honum afhent heiðursskjal. Hann situr því áfram í Heiðursráði ÞFÍ þótt hann hafi látið af formennsku þess. Formennskunni hafði hann gegnt frá upphafi Heiðursráðsins.

Á Þjóðræknisþinginu 2019 verður verður 80 ára afmælis ÞFÍ sérstaklega minnst.

KÁINN

Þjóðræknisfélagið hefur styrkt Jón Hjaltason, sagnfræðing, til að klára að skrifa bók þá um ævi KÁINS sem hann hefur unnið að.

Önnur verkefni á starfsárinu

Fréttabréf ÞFÍ kom út einu sinni á starfsárinu. Stjórn ÞFÍ tók þá ákvörðun fyrir rúmlega ári að gefa fréttabréfið aðeins út rafrænt, þ.e. hætta prentútgáfu. Nýi vefur ÞFÍ er www.inl.is og nýja netfangið er inl@inl.is.

Fræðslufundur að hausti.

ÞFÍ efndi til fræðslufundar að hausti, 1. nóvember sl. Þar fluttu erindi Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður og Sandra Björg Ernudóttir, þjóðfræðingur. Erindi Margrétar nefndist “Menningararfur íslenskra landnema í Vesturheimi. Þjóðminjar, minningar og veganesti”. Erindi Söndru nefndist “Hvað er ég núna? Sjálfsmyndarsköpun ungra Vestur-Íslendinga á 21. öld.” Erindin voru bæði fróðleg og skemmtileg og spunnust fjörlegar umræður í kjölfar þeirra.

Fræðslufundur að vori.

Dagsetning fræðslufundar að vori liggur ekki fyrir, en ekki leikur vafi á að þá verður að vanda boðið upp á fróðleik og skemmtun er tengjast vestur-íslenskum málefnum.

Heiðursráð ÞFÍ

Samkvæmt starfsreglum Heiðursráðs Þjóðræknisfélags Íslendinga er tilgangur þess  “að efla tengsl Íslendinga við afkomendur Íslendinga í Vesturheimi og treysta fjárhagsstöðu félagsins.” Heiðursráðið hefur starfað frá árinu 2013 og kemur saman árlega. Formaður þess frá upphafi hefur verið Svavar Gestsson, eins og fyrr segir. Hann gaf ekki kost á sér til formennsku áfram. Á ársfundi ráðsins 3. október 2018 tók Halldór Árnason formlega við sem formaður í stað Svavars. Í ráðinu sitja “Einstaklingar sem unnið hafa frábært starf fyrir félagið og formenn eða fulltrúar félagasamtaka, stofnana og fyrirtækja sem styrkja Þjóðræknisfélagið og starfsemi þess sérstaklega.”

Á fundinum var m.a. fjallað um það sem efst er á baugi hjá Þjóðræknisfélagi Íslendinga og Þjóðræknisfélagi Íslendinga í Vesturheimi, Snorraverkefnin og framtíð þeirra, verkefnið. ”Í fótspor Árna Magnússonar” (skráning ísl. menningarminja í Kan. og BNA í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar) og Íslenskudeildina við Manitóbaháskóla. Fram kom að sameiginleg ráðstefna Háskóla Íslands og Manitóbaháskóla verður haldin hér í ág.

Samstarf við Vesturfarasetrið á Hofsósi.

Þjóðræknisfélagið hefur átt afar gott samstarf við Vesturfarasetrið á Hofsósi á undanförnum árum. Frá upphafi Snorraverkefnanna hafa þátttakendur verkefnanna haft viðdvöl og gist á Hofsósi. Valgeiri Þorvaldssyni, forstöðumanni setursins er hér enn og aftur þakkað fyrir afar gott og ánægjulegt samstarf. Á Hofsósi var  í júní haldin minningarhátíð um vestur-íslenska rithöfundinn og ljóðskáldið Bill Holm frá Minnesota, en hann dvaldi oft á Hofsósi og átti þar hús.

Samskipti við félög og samtök í Vesturheimi

Ársþing Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi (INL NA) var haldið í Edmonton í Albertafylki Kanada, 26.-28. apríl sl. Hjálmar W. Hannesson, Halldór Árnason og Ásta Sól Kristjánsdóttir sóttu þingið af hálfu ÞFÍ og Snorrasjóðs og fluttu öll ávörp. Beverly Arason-Gaudet var kjörin forseti samtakanna og tók hún við af Sunnu Pam Furstenau sem gegndi stöðunni af miklum metnaði og atorku í tvö ár. Sunna er vel þekkt á Íslandi og hefur flutt erindi á þjóðræknisþingum og víða um land um þá lífsfyllingu sem áhugi hennar á íslenskum rótum sínum hefur fært henni. Fyrir fáeinum árum festi hún ásamt Jeff manni sínum kaup á ættfræðigrunni Hálfdáns Helgasonar sem hægt er að nálgast undir síðunni www.icelandicroots.com . Mjög miklum upplýsingum hefur verið bætt við grunninn og heldur sú vinna áfram af miklum krafti. Icelandic Roots er sjálfseignastofnun og öll vinna á þess vegum er sjálfboðastarf. Það fé sem aflast með keyptum aðgangi að vefnum fer í að styrkja verkefni sem stuðla að auknum samskiptum Íslendinga og Vestur-Íslendinga. Forseti Íslands sæmdi Sunnu Riddarakrossi Fálkaorðunnar í fyrra fyrir frábær störf í þágu samskiptanna milli Vestur-Íslendinga og gamla landsins.

Fjölmargir ungir þátttakendur í Snorra verkefninu hafa notið fjárhagsstuðnings frá Icelandic Roots. ÞFÍ endurtekur þakkir til Icelandic Roots fyrir þennan mikilvæga stuðning.

Þjóðræknisfélag Íslendinga í Norður Ameríku stendur fyrir afmælisferð til Íslands 14. – 26. ágúst nk., “INL NA 100th Anniversary Tour to Iceland.”

Ekki er hægt að telja upp alla þá fjölmörgu Vestur Íslendinga sem stjórn ÞFÍ, öll eða að hluta, hefur samskipti við á hverju ári. Þau beinu og persónulegu samskipti eru dýrmætur þáttur í starfinu.

INL NA í eina öld.

Þjóðræknisfélag Íslendinga í Norður Ameríku (INL NA) verður eitt hundruð ára á þessu ári, eins og fram hefur komið. Þetta er einstakt og merkilegt afmæli. Það var stofnað í Winnipeg árið 1919 og 100. þing INL NA verður einmitt haldið þar í borg í tilefni aldarafmælisins, 16. -19. maí. Er ekki að efa að þá verður mikið um dýrðir. Hópur á vegum ÞFÍ sækir afmælisþingið heim og hafa 36 manns verið bókaðir. Til stóð að hópur kennara færi með í þessa ferð en það mun ekki ganga eftir. Fyrirtækið KVAN annast alla fyrirgreiðslu fyrir þessa ferð, en fararstjóri verður Almar Grímsson.

International Visits Program (IVP) 

IVP verkefnið er þannig hugsað að annað árið fer einhver héðan frá Íslandi til Vesturheims og hitt árið kemur Vestur Íslendingur hingað. Þannig hafa rithöfundar og aðrir listamenn, fyrirlesarar margskonar o.fl. ferðast um og sagt frá sínu sérsviði eða sýnt verk hér á landi og fyrir vestan.

Þakkir og kveðjur

Þjóðræknisfélagið færir utanríkisráðuneytinu og Icelandair innilegt þakklæti fyrir mikilvægan fjárhagslegan stuðning um árabil sem hefur gert félaginu kleift að sinna sínu umfangsmikla starfi. Þá þakkar félagið sendiráði Kanada á Íslandi og sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi og starfsfólki þeirra fyrir mikilsverðan stuðning við starfsemi félagsins

Félagsmönnum öllum þakkar stjórnin stuðning og tryggð við félagið.

F.h. stjórnar ÞFÍ,  Hjálmar W. Hannesson, formaður

Lokaorð 

Þetta ár hefur verið lærdómsríkt og gefandi. Ég vil þakka samstarfsfólki mínu í stjórn ÞFÍ fyrir ánægjulega samvinnu. Saman höfum við reynt eftir bestu getu að efla samstarf og samskipti Íslendinga við afkomendur og samtök Íslendinga í Vesturheimi á sem flestum sviðum. Meðal grunnverkefna félagsins er að auka skilning almennings, stofnana og fyrirtækja á Íslandi á mikilvægi náins sambands við Íslendingabyggðir vestanhafs og fá fleiri aðila til liðs við félagið, ekki síst ungt fólk.

Þar sem ég hef nú lokið tveggja ára kjörtímabili mínu í formennsku fyrir ÞFÍ og af persónulegum ástæðum ætla ekki að gefa kost á mér til áframhaldandi formannsstarfa, vil ég að lokum segja að þessi tvö ár hafa verið skemmtileg og áhugaverð. Ég sit áfram í stjórn ÞFÍ í eitt ár sem fyrrverandi formaður. Mikilvæg markmið og starfsemi ÞFÍ verða mér ávallt kær og vonast ég til að geta orðið að einhverju liði áfram. Nýjum formanni og stjórn ÞFÍ óska ég allra heilla.

Hjálmar W. Hannesson.